miðvikudagur, júní 30, 2004

Mozart


Wolfgang Amadeus Mozart var um margt merkilegur maður, þó ekki sé nema fyrir þá löngu rullu sem hann fékk fyrir nafn við skírn: Johannes Chrystostomus Wofgangus Theopilus Mozart... Hann er almennt sagður mesta tónskáld í sögu vestrænnar tónlistar og á að baki snilldarverk eins og Figaro, Don Giovanni, Töfraflautuna og Requiem svo fátt eitt sé nefnt og því var ég viss um að upplifa áhugaverða lesningu þegar ég byrjaði að lesa bókina Bréf Mozarts - úrval sem inniheldur útdrætti úr bréfaskriftum Mozarts frá bernsku til æviloka. Og það var líka laukrétt hjá mér. Hann var alls ekki eins heilagur og fólk gæti búist við af 18. aldar tónskáldi. Ég ætla ekkert að blaðra meira um það, heldur láta tvo valda kafla tala sínu máli.

Úr bréfi til Maríu Önnu, frænku Mozarts, 5. nóvember 1777
En nú má ég til með að segja yður raunasögu sem gerðist rétt í þessu meðan ég sat í bezta gengi við að skrifa þetta bréf: Ég heyri eitthvert hljóð koma utan frá götunni, hætti að skrifa og geng að glugganum -- og -- heyri ekkert! -- sest á ný niður við skriftirnar -- festi varla 10 orð á blað áður en aftur heyrist hljóð -- stend upp, en þá dofnar hljóðið -- þá er eins og ég finni keim af viðarbrunnu -- og hvert sem ég sný mér fylgir mér versti fnykur. Líti ég út um gluggann, hverfur daunninn; snúi ég mér við, vex ólyktin -- loks segir mamma við mig: Ég þykist vita að þú hafir leyst vind -- Það held ég ekki, mamma. Og þó, kannski svo sé. Ég rannsaka málið, sting vísifingri í rassinn og færi hann síðan upp að nefinu, - og -- Ecce Probatum est; mamma hafði rétt fyrir sér.

Úr bréfi til föðurins, 14. nóvember 1777.
Ég, Johannes Chrystostomos Amadeus Wofgangus Sigismundus* Mozart, játa mig sekan um að hafa ekki komið heim til mín í fyrradag og í gær fyrr en kl. 12 á miðnætti, og enn fremur að hafa frá kl. 10 til áður getins tíma dvalið hjá Cannabich í viðurvist hans sjálfs og heimafólks hans, konu og dóttur, féhirðanna herra Ramms og herra Langs og rímað við þetta fólk oftsinnis, engan veginn í alvöru heldur í léttum dúr en allgroddalegum, svo sem um skít, drullu, rass-sleikjuskap og það í hugrenningum á víð og dreif, orðum og --- en ekki í verki.

*Mozart klíndi á sig alls konar nöfnum þegar hann var að skrifa um sjálfan sig eða undirrita bréfin.

Tekið ófrjálsri hendi úr bókinni Bréf Mozarts - úrval (Þýðandi: Árni Kristjánsson). Vonandi fyrirgefst mér þetta brot á höfundarréttalögum þar sem tilgangur minn er svo göfugur að mennta og fræða alþýðuna og vekja um leið áhuga á skáldinu og bókinni.

laugardagur, júní 26, 2004

Michael Jackson og ég

Ég átti mér átrúnaðargoð eins og aðrir þegar ég var lítill. Ég man enn eftir 45 snúninga Bad plötunni hans Jacksons sem ég hlustaði á daginn inn og daginn út og söng með hástöfum þó ég væri ekki hár í loftinu og ég lýsti ítrekað yfir aðdáun minni á þessum snillingi. Ég hringdi líka stundum í fröken klukku og reif kjaft við hana í von um að slá hana út af laginu og þegar ég var ekki að því hringdi ég í talsamband við útlönd og bað um símann hjá Michael Jackson. Þau þráuðust nú við að láta mig fá símann hjá honum en ég hélt áfram að hringja. Ég sagði mömmu frá þessari ósk minni um að eiga í samræðum við goðið og hún greip til sinna ráða eins og mæðrum einum er lagið. Dag einn spurði hún mig hvort ég vildi tala við Michael Jackson. Sagðist vita símann hjá honum og bauðst til að slá inn númerið. Ég varð vitaskuld óður af gleði og settist við símann. Hún tók upp tólið, valdi númer og sagði: „Halló, er þetta Michael Jackson? Hér er lítill strákur sem vill endilega tala við þig.“ Já, glöggu lesendur, hún sagði það á íslensku. Mér fannst ekkert athugavert við það, enda var ég heillaður af þeirri hugsun að vera í þann mund að tala við goðið. Á hinum enda línunnar var systir mömmu og hún vissi af áhuga mínum á Jackson. Björg, eins og hún heitir, sagði mömmu að rétta mér tólið sem mamma gerði. Í geðshræringu hvíslaði ég „halló“ og Björg byrjaði: „Raksjon treksjon trowsers on ðe blósers. Blensing fáwser monsenblensen...“ og fleira í þeim dúr. Ég skildi ekki orð en mér var alveg sama. Ég var að tala við Michael Jackson! Ég gat engu stunið upp öðru en „já“ og „aha“ inn á milli þarna sem ég sat opinmynntur að upplifa alla mína drauma. Eftir smá stund af þessu spurði mamma hvort ég væri ekki búin að tala nóg, tók tólið, þakkaði „Jackson“ fyrir og kvaddi. Ég sveif á skýji og hafði aldrei dáðst að Jackson eins mikið og akkúrat þarna fyrir að gefa sér tíma til að deila visku sinni með mér.

Þetta grófst svo bara í minningabankanum og ég hugsaði ekki meira um þetta fyrr en dag einn á fullorðinsárum mínum að ég og mamma vorum að rifja upp gamlar sögur af mér. Þá nefndi hún það þegar ég talaði við Björg frænku og hélt að það væri Michael Jackson. Þar sem ég hafði ekki hugsað um þetta í öll þessi ár fyrr en þarna var ég enn fastur í minningunni með þeim barnslegu augum sem ég leit hana þá, og hrópaði næstum upp yfir mig: „Var þetta ekki Michael Jackson!!?“ En þá áttaði ég mig á því hvernig raunveruleikinn virkar og að ég hefði þarna verið illa prettaður. En ég fyrirgaf mömmu, því hún vildi vel eins og allar mæður. Og það virkaði svo sannarlega, því þetta er ein af mínum bestu minningum.

fimmtudagur, júní 17, 2004

Helvítis keðjubréf!

Fáum eitt á hreint. Ég hata keðjubréf af öllum lífs og sálar kröftum. Ég hata það meira en ruslpóstinn sem býður mér tippastækkanir, sólarlandaferðir, lottóvinninga og kynlíf með gröðum húsmæðrum í Reykjavík. Venjulega ruslpóstinn get ég þolað vegna þess að ég veit að það er illa innrætt fólk þarna úti sem sendir hann í von um gróða og ég bæti þessu öllu samviskusamlega á ruslpóstlistann minn og þetta fer allt sjálfkrafa beinustu leið í ruslið. En það sem ég þoli ekki er þegar heiðvirt fólk lætur blekkjast af einhverri þvælu sem fær það til að senda bréf áfram til 10 vina sinna og heimta að það geri slíkt hið sama, annaðhvort því það trúir því að eitthvert veikt barn í Rassgatistan fái milljónir króna fyrir vikið eða þá að það er verið að safna undirskriftum til að stöðva stríð eða annað álíka rugl.

Hér er smá leikur að tölum. Gefum okkur að eitt svona e-mail sé 30KB. Lítum hjá þeirri staðreynd að í hvert skipti sem það er sent áfram bætist við stærðina og höldum okkur við þessa tölu og gefum okkur líka að hver einasti maður sendi bréfið áfram. Ef ég sendi það á 10 manns sem senda allir á aðra 10, sem svo senda það allir á aðra 10, þá erum við komin með 1.110 e-mail. Næst þegar allir senda á 10 vini sína verða þau 11.110 og í þarnæstu umferð 111.110. Og í næstu umferð? Jú, 1.111.110. Í sex umferðum hefur þetta 30KB skeyti margfaldast upp í meira en 30GB. ÞRJÁTÍU GÍGABÆT!! Fyrir þá sem skilja ekki bætastærðir eru þetta um fjörutíu smekkfullir skrifanlegir geisladiskar. Og allt er þetta óþarfa traffík sem engu skilar nema töfum á internetinu og veseni fyrir tölvunotendur sem vilja nota internetið sitt í friði.

Ég held þó að enginn segi það betur en Denis Leary, sem skrifaði einmitt þetta keðjubréf:

Halló, ég heiti Basmati Kasaar. Ég þjáist af sjaldgæfum og lífshættulegum sjúkdómi, lélegum einkunnum á lokaprófum, áralöngum sveindómi, hræðslu við að vera rænt af mannræningjum og líflátinn með raflosti í endaþarm, og sektarkennd yfir því að senda ekki áfram 50 billjón helvítis keðjubréf sem ég hef fengið send frá fólki sem trúir því virkilega að ef maður sendir þau áfram, þá muni aumingja litla sex ára telpan í Arkansas, með brjóstið á enninu, safna nægum fjármunum til að láta fjarlægja það áður en rauðhálsarnir foreldrar hennar selja hana í viðundrasýningu sem ferðast um landið vítt og breitt.

Trúir þú virkilega að Bill Gates ætli sér að gefa þér og öllum öðrum sem senda áfram tölvupóstinn "hans" 1000 dollara? Hversu mikill hálfviti ertu? Úúúúúú, sjáðu þetta! Ef ég skruna niður þessa síðu og óska mér, þá fæ ég drátt hjá öllum Playboy stelpunum sem eru í nýjasta tölublaðinu! Þvílíkt og annað eins kjaftæði. Sem sagt, þessi skilaboð eru eitt stórt FUCK YOU til allra þeirra sem hafa ekkert betra að gera en að senda mér heimskuleg keðjubréf í tölvupósti.

Kannski munu vondu keðjubréfaálfarnir koma heim til mín og misþyrma mér í boruna á meðan ég sef, fyrir það að hafa ekki haldið áfram keðjunni sem Jesús kom af stað árið 5 e.K. og kom til Bandaríkjanna í fórum dvergvaxinna pílagríma um borð í Mayflower og ef það lifir af til ársins 2000 þá kemst það í Heimsmetabók Guinness fyrir lengstu óslitnu hrinu af blygðunarlausri heimsku.

Fari þeir til andskotans.

Ef þú ætlar að senda eitthvað áfram, sendu mér þá að minnsta kosti eitthvað sem er ofurlítið skondið. Ég er búinn að sjá allar þessar „sendu þetta áfram til 50 bestu vina þinna, og þessi aumingjans, skammarlega afsökun fyrir manneskju mun einhvern veginn fá fimmkall frá einhverri almáttugri veru“-tölvupóstsendingar u.þ.b. 90 sinnum. Mér er alveg skítsama.

Reyndu að sýna vott af skynsemi og hugsa um hvað þú ert í raun að afreka með þessu öllu saman. Allar líkur eru á að þú sért aðeins að auka á þínar eigin óvinsældir.

--------------------------------------------------------------------------------

FJÓRAR GRUNNTEGUNDIR KEÐJUBRÉFA:

KEÐJUBRÉF - Tegund 1:

(skrunaðu niður)

>
>
>
>
>
>
>
>
>

Óskaðu þér!!!

>
>
>
>
>
>
>
>
>

Nei, svona, í alvöru, óskaðu þér!!!

>
>
>
>
>
>
>


Slappaðu aðeins af, hún fer aldrei út með þér!!!

>
>
>
>
>
>
>


Óskaðu þér einhvers annars!!!

>
>
>
>
>
>
>

Ekki þetta, öfugugginn þinn!!!

>
>
>
>
>
>
>

Ertu ekkert að þreytast í puttanum?

>
>
>
>
>
>
>
>

HÆTTU!!!!

Var þetta ekki gaman?

Ég vona að þú hafir óskað þér einhvers skemmtilegs.

Jæja, til að láta þig fá samviskubit, þá ætla ég að segja þér eftirfarandi.

Til að byrja með, ef þú ekki sendir þetta til 5096 manns innan fimm sekúndna, verður þér nauðgað af brjálaðri geit og hent fram af hárri byggingu ofan í mykjuhaug.

Þetta er satt! Vegna þess að ÞETTA bréf er ekki eins og öll gervibréfin,
ÞETTA er ALVÖRU!! Alveg satt!!! Svona virkar þetta:

Sendu þetta áfram á einn einstakling: Einn einstaklingur verður fúll út í þig fyrir að senda honum heimskulegt keðjubréf.

Sendu þetta áfram á 2-5 manns: 2-5 manns verða fúlir út í þig fyrir að senda þeim heimskulegt keðjubréf.

Sendu þetta áfram á 5-10 manns: 5-10 manns verða fúlir út í þig fyrir að senda þeim heimskulegt keðjubréf og gætu sameinast um að stytta þér aldur.

Sendu þetta áfram á 10-20 manns: 10-20 manns verða fúlir út í þig fyrir að senda þeim heimskulegt keðjubréf og munu sprengja upp húsið þitt.

Takk!!!! Gangi þér vel!!!

--------------------------------------------------------------------------------

KEÐJUBRÉF - Tegund 2:
Halló, og takk fyrir að lesa þetta bréf. Sjáðu til, um er að ræða lítinn, sveltandi dreng í Baklaliviatatlaglooshen sem er handalaus, fótalaus, munaðarlaus og geitalaus. Lífi þessa drengs er hægt að bjarga, því í hvert sinn sem þú sendir þetta áfram, verður einn dollari gefinn í „Litli sveltandi, fótalausi, handalausi og geitalausi drengurinn frá Baklaliviatatlaglooshen“-sjóðinn.

Já og mundu líka að við höfum enga aðferð til að telja tölvupóstinn sem sendur er og þetta er allt saman grábölvað kjaftæði. Svo láttu verða af því, réttu út hjálparhönd.


Sendu þetta til fimm manns á næstu 47 sekúndum.

Ó já, smá áminning - ef þú sendir þetta óvart til fjögurra eða sex einstaklinga, munt þú deyja samstundis. Takk aftur!!

--------------------------------------------------------------------------------

KEÐJUBRÉF - Tegund 3:
Hæ hæ!! Þetta keðjubréf hefur verið til síðan 1897. Þetta er alveg ótrúlegt þar sem tölvupóstur var ekki til í þá daga og örugglega ekki eins mikið af brjóstumkennanlegum drullusokkum sem höfðu ekkert betra við tímann að gera. Og svona virkar þetta:

Sendu þetta áfram á 15.067 manns á næstu sjö mínútum eða eitthvað hræðilegt mun koma fyrir þig, eins og til dæmis:

Stórfurðuleg hryllingssaga #1
Miranda Pinsley var að ganga heim úr skólanum á laugardegi. Hún hafði stuttu áður fengið þennan tölvupóst og hunsað hann. Skyndilega hnaut hún um skemmd í gangstéttinni, datt ofan í ræsi, gusaðist eftir holræsakerfinu í kúkaflóði og flaug að lokum fram af fossi. Ekki einasta lyktaði hún illa, heldur dó hún líka. Þetta Gæti Komið Fyrir Þig!!!

Stórfurðuleg hryllingssaga #2
Dexter Bip, 13 ára drengur, fékk keðjubréf í tölvupósti og hunsaði það. Seinna þann dag varð hann fyrir bíl og sömuleiðis kærastinn hans (hey, sumir sveiflast í þá áttina). Þeir dóu báðir og fóru til helvítis og voru dæmdir til að borða yndislega kettlinga á hverjum degi um alla eilífð.

Þetta Gæti Líka Komið Fyrir Þig!!! Mundu að þú gætir endað eins og Pinsley og Bip. Sendu bara þetta bréf á alla lúseravini þína og allt verður í stakasta lagi.

--------------------------------------------------------------------------------

KEÐJUBRÉF - Tegund 4:
Eins og þér sé ekki sama, þá er hérna ljóð sem ég samdi. Sendu það til allra vina þinna.

Vinir.


Vinur er einhver sem er alltaf við hlið þér.
Vinur er einhver sem líkar við þig þó það sé skítalykt af þér og andremman út úr þér sé eins og þú hafir verið að borða kattamat.
Vinur er einhver sem líkar við þig þó þú sért jafn ljótur og hattur fullur af rassgötum.
Vinur er einhver sem þrífur þig eftir að þú ert búinn að gera í þig.
Vinur er einhver sem er hjá þér alla nóttina á meðan þú grætur yfir ömurlegu lífi þínu.
Vinur er einhver sem þykist líka við þig þó hann vilji frekar að þér sé nauðgað af geðveikum simpönsum og síðan kastað fyrir óða hunda.
Vinur er einhver sem þrífur klósettið þitt, ryksugar og tekur svo við ávísuninni og fer og talarekki mikla ensku... nei, fyrirgefðu, það er húshjálpin.
Vinur er einhver sem sendir þér keðjubréf af því að hann vill að óskin hans um að verða ríkur rætist.

Sendu þetta nú áfram! Ef þú gerir það ekki muntu aldrei stunda kynlíf framar.

--------------------------------------------------------------------------------

Hver er svo tilgangurinn með þessu öllu saman?

Ef þú færð keðjubréf sem hótar því að skilja þig eftir dráttarlausan og lánlausan það sem eftir er lífs þíns hentu því þá. Ef það er fyndið skaltu senda það áfram.


Ekki vera að pirra fólk með því að láta það fá samviskubit yfir tannlausum holdsveikisjúklingi frá Botswana, sem hefur verið bundinn við dauðan fíl í 27 ár, og hans eina von er túkallinn sem hann fær ef þú sendir þetta bréf áfram, annars endar þú eins og Miranda. Ekki satt?

Sendu þetta nú áfram til allra sem þú þekkir, annars þarftu að sjá mig nakinn!


Denis Leary

miðvikudagur, júní 16, 2004

Óveður og skólaslit

Jæja, nú blogga ég. Eftir margra vikna samviskubit og stöðugt nöldur vina og ættingja hef ég loks drullast til að setjast við tölvuna og blogga. Ekki það að ég sitji sjaldan við tölvu - þvert á móti - en andinn kemur bara ekki yfir mig hvar sem er og hvenær sem er. ...og ég þarf að fá andann yfir mig til að blogga. Mér nægir ekki að skrifa bara að ég hafi troðið í mig íspinna og samloku yfir daginn og heimsótt svo vin minn. Skrif mín þurfa að snerta strengi í hjörtum lesenda. Einmitt þess vegna skrifa ég um þvaglát í eigið andlit og pungviðranir...
En fyrst ég er nú farinn á þær slóðir er best að ég afgreiði hlandsöguna hér og nú. Það var þannig að fyrir mörgum árum var ég að rúnta með félögum mínum og fann þá hjá mér þörf til að míga. Ég ók að vinsælu pissusvæði sem er nálægt hafinu og lagði bílnum. Það var heldur vindasamt þetta kvöld svo ég þurfti að framkvæma heilmiklar veðurathuganir áður en ég gat hafist handa. Ég mældi vindátt og vindhraða og tók mér svo stöðu þannig að ég sneri bakinu í vindinn. Og auðvitað gat ég ekki bara staðið hvar sem er og migið út í loftið. Eins og alvöru karlmaður varð ég að míga á eitthvað og ákvað þarna að nærliggjandi steypuveggur, um 1,5m á hæð, væri fullkominn til að míga á. Ég stillti mér upp og hleypti hetjunni út í óveðrið og byrjaði að míga. Það var þá sem ég áttaði mig á mistökunum. Með vindinn í bakið og standandi upp við vegg myndaðist hvirfill einmitt þar sem bunan mín hefði átt að stefna á vegginn í fallegum boga, þannig að í stað þess að mynda bogann varð til hlandóveðursský OG ÉG STÓÐ Í ÞVÍ MIÐJU!
Ég stóð semsagt þarna í roki og heimatilbúnu úðaregni og leitaði í dauðans offorsi að leið til að minnka skaðann. Ég sneri mér á alla kanta, frá veggnum en þá upp í vindinn, bunaði niður og bunaði upp en alltaf stóð ég í miðju skýinu. Það var loks að ég rembdist af öllum lífs og sálar kröftum og meig af öllu afli þversum á vindáttina að ég gat búið til nokkurskonar bunu sem fór nægilega langt frá mér áður en vindurinn greip hana og þeytti henni til hægri frá mér. Að þessu loknu settist ég upp í bílinn með skaddaða sál og brotna sjálfsmynd og keyrði heim að þvo mér.

Af öðrum afrekum lífs míns er það helst að frétta að ég fór á skólaslit Holtaskóla, þar sem ég hef verið að kenna í forföllum. Ég laumaðist þar inn í miðjum ræðuhöldum og kom mér fyrir aftast í salnum og fylgdist með. Ég er búinn að vera að leysa af í kennslu á öllum aldurshópum í skólanum og þykir afskaplega vænt um alla nemendurna þó ég hafi ekki eytt með þeim miklum tíma. Að minnsta kosti ekki eins miklum og ég hefði viljað. Þennan dag fór ég að fylgjast með 10. bekkingum fá lokaeinkunnirnar sínar og útskrifast úr grunnskóla. Ég hafði eytt meiri tíma með þeim en öðrum þar sem ég hafði tekið að mér að leiðbeina námshóp sem samanstóð af nær öllum 10. bekkingunum sem komu saman í þeim tilgangi að búa sig undir samræmdu prófin. Ég leiðbeindi þeim í samfélagsfræði. Það fór alltaf vel á með mér og þeim (og gerir enn) og ég held svei mér þá að ég hafi getað kennt þeim eitthvað smávegis. En hvort sem þau lærðu eða ekki, þá skemmtum við okkur að minnsta kosti vel saman.
Allavega... mitt í öllum ræðuhöldunum, þar sem búið var að tala um þessa námshópa og svo bara skólastarfið almennt, þá biðja þrír strákar úr 10. bekk um orðið. Þeir fóru í pontu og sögðust vilja bæta við nokkru sem hefði gleymst að nefna þegar talað var um námshópana, og það væri „að þakka Styrmi fyrir.“ Og að þeim orðum sögðum stóðu 10. bekkingarnir upp, sneru sér að mér og klöppuðu.
Ég sver það, ef ég væri ekki það gríðarkarlmenni sem ég er, þá hefði ég farið að gráta þar sem ég stóð. ...og ég verð meira að segja svolítið klökkur inni í mér að skrifa um þetta. Og ef einhver af þessum 10. bekkingum skyldi lesa bloggið mitt, þá megið þið vita að mér þykir alveg ofboðslega vænt um ykkur öll og ég gleymi þessu ekki.
En mitt í allri þessari dramatík ber þó helst að þakka alvöru kennurunum þeirra sem eiga allan heiður af því að hafa komið þeim í gegnum 10 ára skólagöngu og hafa aðstoðað við að gera þau að þeim prýðispersónum sem þau eru í dag. Hvað svo sem ég hef gert fyrir krakkana, þá er það bara dropi í hafið á við allt sem alvöru kennararnir hafa gert og því ætla ég, þar sem ég sit hér einn inni á skrifstofu, að standa upp og klappa fyrir þeim. Og þið sem lesið þetta, standið upp og klappið fyrir hvunndagshetjunum okkar.

Fleiri verða þau orð ekki að sinni,

Amen