þriðjudagur, júlí 27, 2004

Gömul tugga

Ég veit að þetta er gömul tugga en þessi hugsun sækir svo oft á mig.
Ég tók saman nokkra dóma sem fallið hafa undanfarna rúma tvo mánuði og finnst ekki alveg samræmi í þyngd dóma og alvarleika brota. Ég skil semsagt ekki hvernig það er alvarlegra að stela peningum frá hvítflibbahyski heldur en að misnota lítil börn og setja svartan blett á sálina þeirra til æviloka. Ég átta mig ekki á því að það sé alvarlegra að bregðast trausti forstjórans í fyrirtækinu þínu og hluthafanna og stela frá þeim peningum heldur en að bregðast því trausti sem barn ber til foreldra sinna. (Eða nágranna, eins og er í einu af málunum)

Hvað finnst ykkur?

-Þunguð kona frá Nígeríu dæmd í 5 ára fangelsi fyrir að smygla 5 þúsund e-töflum.
-Fyrrverandi framkvæmdastjóri Tryggingasjóðs lækna dæmdur í 2 1/2 árs fangelsi fyrir fjárdrátt.
-Kynferðisafbrotamaður fær 10 mánuði fyrir að misnota 6 og 7 ára gamlar stúlkur.
-Faðir dæmdur í 2 ára fangelsi (þar af 21 mánuð skilorðsbundinn) fyrir að misnota tvær dætur sínar.
-Faðir dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir að misnota dóttur sína og stjúpdóttur.
-Aðalgjaldkeri Landssímans dæmdur í 4 1/2 árs fangelsi fyrir fjárdrátt.

Ég veit að fólk hefur alls konar skoðanir á þessu og margir eru alls ekki sammála mér, annars væri þetta kerfi ekki eins og það er. Gaman væri þó að sjá ykkar skoðanir hér í commentunum.

mánudagur, júlí 26, 2004

Tristan minn er kominn heim...

...og þá get ég farið að blogga aftur. Í hvert skipti sem ég hef ætlað að blogga að undanförnu hef ég séð myndina af Tristan og saknað hans svo mikið að ég gat ekki fengið mig til að skrifa neitt gáfulegt. En svo gerðist það klukkan 7 að morgni síðasta föstudags að hann kom heim. Hann stökk upp á stól og mjálmaði af öllum lífs og sálar kröftum til að tilkynna um heimkomuna. Lillý vaknaði við mjálmið og ég vaknaði við gleðiópin í henni. Það er ekki að spyrja að því að við rukum bæði til og helltum vatni í skál, mjólk í aðra skál, settum kattamat í eina skál og túnfisk í aðra og veislan hófst. Hann var svo glaður að sjá okkur og matinn að hann vissi ekki hvort hann átti að mala, mjálma eða borða matinn sinn svo hann gerði það bara allt í einu meðan ég og Lillý stóðum hjá, vitstola af gleði. Það fer ekki á milli mála að hann hefur lokast inni í einhverjum bílskúr. Það var þannig lykt af feldinum hans en þar fyrir utan var hann tandurhreinn. Einnig hefur hann greinilega ekki borðað í þá 20 daga sem hann var í burtu því hann hefur misst ótal mörg kíló. Nú get ég bloggað með hann brýnandi klærnar á skrifborðsstólnum og baðað mig með hann sofandi í baðherbergisvaskinum. Lífið verður varla betra.
Það er þó erfiður tími í gangi núna, því maginn og lifrin í Tristan fóru illa á matarleysinu. Við þurfum að venja líkamann á honum við mat upp á nýtt og því verða allar máltíðir að vera agnarsmáar eða 7 grömm í máltið, þrisvar á dag. Ef við gerum það ekki er hætt við að hann fái svokallaða fitulifur og deyi. Hann er ekki sá hressasti með þessa tilhögun og mjálmar sáran þegar hann hefur klárað grömmin sín sjö, sem vart eru upp í nös á ketti. Badabing!

En í öðrum fréttum er það helst að ég horfði á myndina Hell Bent á Horror Channel um daginn. Ég stilli stundum á þá sjónvarpsstöð til að minna mig á að þó að Hulk hafi verið ein sú lélegasta mynd sem ég hef á ævi minni séð, þá gerast þær verri. Ég sá ekki alla Hell Bent myndina en sá þó nóg. Karakterarnir í myndinni minntu ansi mikið á þá í Clockwork Orange (sem er þrusugóð mynd), þar sem höfuðpaurinn var andfélagslegur rugludallur með alls konar djúpar skoðanir á heiminum og fólkinu í honum. Með honum í för var ruddalegur náungi með harðkúluhatt og fáránlega gerfilegan riffil sem vissi ekkert í sinn haus og gerði bara eins og forsprakkinn sagði og svaraði öllum spurningum með „huh?“.
Það rosalegasta í myndinni var leðrið. Það voru allir í einhverju leðri. Ruddinn var í leðurvesti en að öðru leyti ber að ofan. Annar hver maður var í leðurjakka og sumir í leðurbuxum. Til að kóróna það voru vondu gæjarnir með yfirvaraskegg og með leðurderhúfu á höfðinu og voru eins og klipptir út úr Village People plakati. Engin af myndunum sem ég sé á Horror Channel hræðir mig en þessi gerði það. Ég var skíthræddur um að einhver kæmi inn og héldi að ég væri að horfa á hommaklám.