miðvikudagur, október 19, 2005

Lausnin fundin

Ég veit nú í hverju bloggvandi minn liggur. Andinn kemur alltaf yfir mig á röngum tíma. Ég fæ helst hugmyndir þegar ég er að keyra, ganga eða sit á kaffihúsi. Þegar ég er loks í námunda við tölvu er ég ekki rétt stemmdur eða man hreinlega ekki um hvað ég ætlaði að skrifa. Nú er lausnin komin. Ég blogga í bók!
Ég fékk þessa vitrun á gangi eftir Laugarveginum. Ég rauk þá beint inn í næstu bókabúð og keypti litla stílabók á 259 krónur. Nú sit ég á Kaffi vín og skrifa í mínu náttúrulega bloggumhverfi vopnaður penna og bók .

Fram að þessu hef ég gengið með pínulitla bók í vasanum og skrifað í hana stikkorð til að muna hvað mig langar að blogga um. Nú ætla ég að afgreiða nokkur atriði úr henni.

Jæja!
Um daginn las ég frétt í DV um að Gunnar Örlygsson mætti kannski ekki fara til Bandaríkjanna vegna gamalla synda á sakaskránni hans. Einhvern tímann sveik hann út fé og keyrði fullur. Varla þó í beinu framhaldi.
Hann var þingmaður fyrir Frjálslynda flokkinn og skipti yfir í Sjálfstæðisflokkinn meðan hann sat enn á þingi eins og frægt er orðið.
DV gerði heilmikið úr ferð hans til Bandaríkjanna þar sem hann átti að sitja allsherjarþing SÞ. Þeir töluðu við Magnús Þór Hafsteinsson, formann frjálslyndra, sem hafði ekkert gott um málið að segja. Fannst það lagleg ímynd Íslands út á við að senda krimma fyrir okkar hönd og lagði áherslu á það með orðunum: „Maðurinn er glæpamaður.“
Djöfull er þetta týpískt. Frjálslyndir setja glæpamanninn á Alþingi en þegar hann er ekki með þeim í liði er glæpamennskan orðin stórmál.
Þegiði bara! Helvítis pólitíkusar.

Það er fleira í pínupókinni minni. Til dæmis skráði ég það hjá mér að manneskjan sem velur og þýðir brandarana í Séð og heyrt er bersýnilega fábjáni. Dæmin eru mýmörg en eitt þeirra skráði ég hjá mér:
„Í fangelsinu:
-Í fyrra gerði ég stóra peninga.
-Nú, var það?
-Já, nákvæmlega 4 mm of stóra.“
BAROMMPOMMTISS! ...ha?
Brandaragúrúinn hefur væntanlega fundið þennan á einhverri fimmaurabrandarasíðu á netinu og þýtt hann. Það sem skrýtluséníið hefur líklega ekki skilið er að fyrsta lína brandarans er tvíeggja á ensku.
„Last year I made big money“ getur bæði þýtt „í fyrra græddi græddi ég fullt af peningum“ og „í fyrra gerði ég stóra peninga.“ Það er djókið, þó umdeilanlegt sé hve gott það er. Brandaragaur, þú ert rekinn!

Það var ekkert fleira í bókinni sem tekur að nefna, enda er hún ný uppfinning.

Þegar ég gekk eftir Laugarveginum áðan ók fram hjá mér gulur Fiat Pinto. Ökumaðurinn var einn í bílnum og með aftursætið fullt af ruslapokum. Hann var að blasta kántrístónlist með rúðurnar niðri. Mér fannst það svolítið spaugilegt en hugsaði sme svo að menn mættu hlusta á það sem þeir vildu meðan þeir sendast með svarta ruslapoka. En þegar hann ók aftur fram hjá mér um fimmtán mínútum síðar og enn að blasta kántrí skellti ég upp úr. Maðurinn var á rúntinum!
Nú er ég ekkert sérlega móðins en ég veit að FMhnakkar á rúntinum í gulum Polo með Scooter í botni eru engan veginn kúl. nema þá kannski í augum greinahöfunda á kallarnir.is og annarra ljósabekkjadrumba. En gulur Fiat með kántrí í botni? Ég er bara ekki viss. Er það fyndið og kúl? Hallærislega kúl? Eða grátlegt?
Ég hreinlega veit það ekki.

Yfir í annað.
Ég byrja rosalega margar setningar á „heyrðu...“. Mér fannst hrikalegt að átta mig á þessu og finnst ég nú vera með hálfgerða vörtu á annars nokkuð eðlilegum talanda.
Ég kenni Völu Matt um. Konan byrjar aðra hverja setningu á „heyrðu...“

-Til að fyrirbyggja allan miskillning vil ég taka það fram að ég horfi bara á þáttarviðbjóðinn hennar þegar ég finn ekki fjarstýringuna.

---

Marilyn Manson er að fara að setja ilmvatn á markaðinn. Hahaha! Meiri tussan. Algjört sellout.
Tónlistarheimurinn er fúafen. Bon Jovi var að gefa út nýtt lag sem heitir Have A Nice Day. Verst að það er bara afrit af It's My Life, því ágæta lagi. Hvað er að? Missti bandið skyndilega áhugann eða hæfileikann til að gera nýja tónlist eða vantaði þá bara fljótfenginn aur?
Allir eru að þessu. PPK datt niður á snilldina ResuRection og gaf fljótlega út keimlíkt lag í kjölfarið á vinsældum þess fyrra. Insomnia með Faithless varð rosalega vinsælt og fljótlega kom út God is a DJ sem var fáránlega líkt. Safri Duo sigruðu heiminn með Played Alive og gerðu eftir það lítið annað en að herma eftir sjálfum sér.
Ég ber enga virðingu fyrir svona liði.
...en ég er þó alltaf til í að tjútta við upprunalegu smellina.