miðvikudagur, júní 30, 2004

Mozart


Wolfgang Amadeus Mozart var um margt merkilegur maður, þó ekki sé nema fyrir þá löngu rullu sem hann fékk fyrir nafn við skírn: Johannes Chrystostomus Wofgangus Theopilus Mozart... Hann er almennt sagður mesta tónskáld í sögu vestrænnar tónlistar og á að baki snilldarverk eins og Figaro, Don Giovanni, Töfraflautuna og Requiem svo fátt eitt sé nefnt og því var ég viss um að upplifa áhugaverða lesningu þegar ég byrjaði að lesa bókina Bréf Mozarts - úrval sem inniheldur útdrætti úr bréfaskriftum Mozarts frá bernsku til æviloka. Og það var líka laukrétt hjá mér. Hann var alls ekki eins heilagur og fólk gæti búist við af 18. aldar tónskáldi. Ég ætla ekkert að blaðra meira um það, heldur láta tvo valda kafla tala sínu máli.

Úr bréfi til Maríu Önnu, frænku Mozarts, 5. nóvember 1777
En nú má ég til með að segja yður raunasögu sem gerðist rétt í þessu meðan ég sat í bezta gengi við að skrifa þetta bréf: Ég heyri eitthvert hljóð koma utan frá götunni, hætti að skrifa og geng að glugganum -- og -- heyri ekkert! -- sest á ný niður við skriftirnar -- festi varla 10 orð á blað áður en aftur heyrist hljóð -- stend upp, en þá dofnar hljóðið -- þá er eins og ég finni keim af viðarbrunnu -- og hvert sem ég sný mér fylgir mér versti fnykur. Líti ég út um gluggann, hverfur daunninn; snúi ég mér við, vex ólyktin -- loks segir mamma við mig: Ég þykist vita að þú hafir leyst vind -- Það held ég ekki, mamma. Og þó, kannski svo sé. Ég rannsaka málið, sting vísifingri í rassinn og færi hann síðan upp að nefinu, - og -- Ecce Probatum est; mamma hafði rétt fyrir sér.

Úr bréfi til föðurins, 14. nóvember 1777.
Ég, Johannes Chrystostomos Amadeus Wofgangus Sigismundus* Mozart, játa mig sekan um að hafa ekki komið heim til mín í fyrradag og í gær fyrr en kl. 12 á miðnætti, og enn fremur að hafa frá kl. 10 til áður getins tíma dvalið hjá Cannabich í viðurvist hans sjálfs og heimafólks hans, konu og dóttur, féhirðanna herra Ramms og herra Langs og rímað við þetta fólk oftsinnis, engan veginn í alvöru heldur í léttum dúr en allgroddalegum, svo sem um skít, drullu, rass-sleikjuskap og það í hugrenningum á víð og dreif, orðum og --- en ekki í verki.

*Mozart klíndi á sig alls konar nöfnum þegar hann var að skrifa um sjálfan sig eða undirrita bréfin.

Tekið ófrjálsri hendi úr bókinni Bréf Mozarts - úrval (Þýðandi: Árni Kristjánsson). Vonandi fyrirgefst mér þetta brot á höfundarréttalögum þar sem tilgangur minn er svo göfugur að mennta og fræða alþýðuna og vekja um leið áhuga á skáldinu og bókinni.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home