mánudagur, september 26, 2005

Netfangaþjófnaður

Á Internetinu þrífst heilmikill iðnaður í kringum það að blekkja fólk og ónáða. Stór fyrirtæki velta milljónum á því að senda ruslpóst og óvandaðir einstaklingar pretta grandalaust fólk með gylliboðum um Rolex-úr, utanlandsferðir, peningagjafir eða uppáferðir. Ég þarf varla að útlista þetta sérstaklega enda kannast eflaust flestir við pop-up glugga sem segja manni að maður sé milljónasti gesturinn á síðunni eða eitthvað í þá áttina og þá geti maður farið frítt til Bahama. Ef maður er nógu vitlaus til að smella á tengilinn er maður beðinn um kortanúmer sem þeir segja að sé vegna einhvers kostnaðar við að leysa út vinninginn. Ef þér sem ert að lesa þetta finnst þetta ekki grunsamlegt enn sem komið er, þá ættirðu að slökkva á Internetinu núna og lesa frekar bók. Það sem gerist semsagt í kjölfarið á þessu er að viðkomandi fær auðvitað engan vinning heldur ólöglegar úttektir af kortinu og eintómt vesen og niðurlægingu í kjölfarið.

Í öllum þessum iðnaði er mikilvægast að verða sér úti um netföng. Þess vegna ganga geisladiskar með tugþúsundum netfanga kaupum og sölum og til þess að fá netföngin eru nokkrar leiðir.

Einhverjir skrifa kóða sem flakkar um heimasíður og veiðir af þeim netföng og enn aðrir bjóða þjónustu eða áskriftir á síðunum sínum gegn því að viðkomandi gefi upp netfangið sitt. Oftast græðir maður ekki nokkurn skapaðan hlut á því að gefa netfangið upp og lendir í staðinn á einum af þessum geisladiskum. Aðferðirnar eru óteljandi og ég var að reka augun í eitt sem er full ástæða til að vara við.

Stúlka sem ég þekki og er með á MSN loggaði sig nýlega inn með nickið: „see who's deleted you on MSN: msn.41m.com“. Ég fór inn á síðuna og þar bjóðast þeir til að segja manni hver hefur eytt manni út. Það eina sem þeir vilja er notendanafnið manns og lykilorðið. Enn og aftur... ef þú sérð ekkert grunsamlegt þegar hér er komið, náðu þér í bók. Í alvöru. Ein af höfuðreglunum sem allir verða að fara eftir á Internetinu er: Aldrei, aldrei, aldrei gefa upp notendanafnið þitt og lykilorðið til þriðja aðila. Þeir sem gera það (og meðal þeirra þessi unga stúlka) lenda í því að þessir aðilar logga sig inn á MSNið hjá manni, skrá sig inn með þessa auglýsingu í titlinum svo fleiri láti gabbast og ræna svo öllum netföngunum af MSNlistanum hjá manni. Svo áður en maður veit af er byrjað að demba á mann valiumauglýsingum og hommaklámi.

Ekki gera sjálfum ykkur þetta og ekki heldur vinum ykkar.

Bachelorránið ógurlega

Ég var að horfa á fyrsta þáttinn í Leitinni. Ég held svei mér þá að mér tækist að búa til betri þátt með Windows MúvíMeiker. Umgjörðin á þættinum var alveg skelfilega viðvaningsleg, myndatakan og flæðið lélegt og kynnirinn alveg hrikalegur. Góður kynnir hefði getað gert þennan þátt bærilegan en hann í hvert skipti sem þátturinn virtist vera kominn á botninn þá mætti hann og byrjaði að grafa. Ég gæti litið framhjá því hve smeðjulegur hann er en ég höndla bara ekki talandann í honum. Þeir sem kynna og tala inn á sjónvarpsefni verða að hafa smá sens fyrir því hvernig maður hljómar áhugaverður. Það er ekki nóg að semja einhverja þvælu til að segja (sem virðist nota bene hafa verið samin í ansi djúpu marijúanapartíi) því þvæluna þarf að bera á borð fyrir hlustandann. Takið eftir því hvernig þeir tala sem kynna og tala inn á bandaríska Bachelorinn, Dateline eða í raun hvað sem er sem er ekki gert í þeim framhaldsskólastíl sem of oft einkennir íslenska þáttagerð og heyrið muninn.

Ég lét mig hafa það að horfa á þetta og var stundum ekki viss hvort ég hefði jafnvel velt mér yfir fjarstýringuna og óvart sett á einhverja Kárahnjúkamynd frá Ómari Ragnarssyni, slíkar voru landslagsmyndirnar og endalausar loftmyndir. Reyndar er það nú illa gert af mér að bera þetta saman við myndirnar hans Ómars því hann gæti ekki tekið svona lélegar loftmyndir þó hann héngi á væng flugvélarinnar með annari hendi og héldi upp um sig buxunum með hinni.

Ok, ok, ég hef ekki bloggað af hjartans lyst lengi og það er kannski ástæðan fyrir hvössu orðavali mínu í garð þáttarins en það breytir þó ekki þeirri staðreynd að hann er lélegur. En það var annað sem olli mér hvað mestri furðu. Og það var þegar slepjulegi kynnirinn sagði að í næstu þáttum yrðu þrír til viðbótar af lokapiparsveinunum fjórum kynntir til sögunnar og í lok fjórða þáttarins gæfist áhorfendum tækifæri til að kjósa álitlegasta piparsveininn með símakosningu.

Er það svo undarlegt? Í sjálfu sér ekki. Íslendingar eru sms-óðir. Við tökum þátt í öllu sem hægt er: Idol kosningu, sms leikjum í beinni, sms-stefnumótaþjónustu, sms-spjalli á textavarpinu og svo sendum við hvert öðru þúsundir sms-a á hverjum einasta degi. En það er ekki nóg með það heldur Íslendingar eru líka sms-heimskir. Það þarf ekki annað en að bjóða fólki að senda sms eitthvert fyrir offjár og þá rjúka allir til. Fólk pantar sér skjátákn og hringitóna fyrir hundruðir króna, svarar já og nei spurningum í Íslandi í dag og sendir inn svör í utandagskrárskjámyndina hjá RÚV til að svara fábjánaspurningum eins og „djammaðiru um helgina?“. Voðalegir hálfvitar getum við verið. Þetta hafa þeir á Skjá 1 uppgötvað og virðast ætla að nýta sér.

Ég tók sérstaklega eftir orðavali kynnisins. Hann sagði ekki að við gætum valið piparsveininn með símakosningu, heldur að við gætum lýst áliti okkar á því hver okkur þætti álitlegastur. Ef þeir hefðu sagt hitt væru þeir að ljúga. Ég er með annað augað á Bachelorframleiðslunni og ég þeir eru langt komnir með tökur. Bachelorinn er búinn að vera að rúnta með gellur á Porche 911 og Porche jeppa, deita þær, kyssa þær og sparka þeim svo heim á leið.

Semsagt: Það er löngu búið að velja hann. Með þessari sms-kosningu sinni held ég að þeir séu að gera annað af tvennu. Segja bara hálfan sannleikann og vona að sem flestir bíti á agnið og telji sig vera ógurlega virka í raunveruleikavæðingunni. Eða að þeim sé alveg sama hvort við vitum að við höfum engin áhrif og að þeir treysti bara á sms-heimskuna í okkur. Hvað heldur þú?