miðvikudagur, júní 16, 2004

Óveður og skólaslit

Jæja, nú blogga ég. Eftir margra vikna samviskubit og stöðugt nöldur vina og ættingja hef ég loks drullast til að setjast við tölvuna og blogga. Ekki það að ég sitji sjaldan við tölvu - þvert á móti - en andinn kemur bara ekki yfir mig hvar sem er og hvenær sem er. ...og ég þarf að fá andann yfir mig til að blogga. Mér nægir ekki að skrifa bara að ég hafi troðið í mig íspinna og samloku yfir daginn og heimsótt svo vin minn. Skrif mín þurfa að snerta strengi í hjörtum lesenda. Einmitt þess vegna skrifa ég um þvaglát í eigið andlit og pungviðranir...
En fyrst ég er nú farinn á þær slóðir er best að ég afgreiði hlandsöguna hér og nú. Það var þannig að fyrir mörgum árum var ég að rúnta með félögum mínum og fann þá hjá mér þörf til að míga. Ég ók að vinsælu pissusvæði sem er nálægt hafinu og lagði bílnum. Það var heldur vindasamt þetta kvöld svo ég þurfti að framkvæma heilmiklar veðurathuganir áður en ég gat hafist handa. Ég mældi vindátt og vindhraða og tók mér svo stöðu þannig að ég sneri bakinu í vindinn. Og auðvitað gat ég ekki bara staðið hvar sem er og migið út í loftið. Eins og alvöru karlmaður varð ég að míga á eitthvað og ákvað þarna að nærliggjandi steypuveggur, um 1,5m á hæð, væri fullkominn til að míga á. Ég stillti mér upp og hleypti hetjunni út í óveðrið og byrjaði að míga. Það var þá sem ég áttaði mig á mistökunum. Með vindinn í bakið og standandi upp við vegg myndaðist hvirfill einmitt þar sem bunan mín hefði átt að stefna á vegginn í fallegum boga, þannig að í stað þess að mynda bogann varð til hlandóveðursský OG ÉG STÓÐ Í ÞVÍ MIÐJU!
Ég stóð semsagt þarna í roki og heimatilbúnu úðaregni og leitaði í dauðans offorsi að leið til að minnka skaðann. Ég sneri mér á alla kanta, frá veggnum en þá upp í vindinn, bunaði niður og bunaði upp en alltaf stóð ég í miðju skýinu. Það var loks að ég rembdist af öllum lífs og sálar kröftum og meig af öllu afli þversum á vindáttina að ég gat búið til nokkurskonar bunu sem fór nægilega langt frá mér áður en vindurinn greip hana og þeytti henni til hægri frá mér. Að þessu loknu settist ég upp í bílinn með skaddaða sál og brotna sjálfsmynd og keyrði heim að þvo mér.

Af öðrum afrekum lífs míns er það helst að frétta að ég fór á skólaslit Holtaskóla, þar sem ég hef verið að kenna í forföllum. Ég laumaðist þar inn í miðjum ræðuhöldum og kom mér fyrir aftast í salnum og fylgdist með. Ég er búinn að vera að leysa af í kennslu á öllum aldurshópum í skólanum og þykir afskaplega vænt um alla nemendurna þó ég hafi ekki eytt með þeim miklum tíma. Að minnsta kosti ekki eins miklum og ég hefði viljað. Þennan dag fór ég að fylgjast með 10. bekkingum fá lokaeinkunnirnar sínar og útskrifast úr grunnskóla. Ég hafði eytt meiri tíma með þeim en öðrum þar sem ég hafði tekið að mér að leiðbeina námshóp sem samanstóð af nær öllum 10. bekkingunum sem komu saman í þeim tilgangi að búa sig undir samræmdu prófin. Ég leiðbeindi þeim í samfélagsfræði. Það fór alltaf vel á með mér og þeim (og gerir enn) og ég held svei mér þá að ég hafi getað kennt þeim eitthvað smávegis. En hvort sem þau lærðu eða ekki, þá skemmtum við okkur að minnsta kosti vel saman.
Allavega... mitt í öllum ræðuhöldunum, þar sem búið var að tala um þessa námshópa og svo bara skólastarfið almennt, þá biðja þrír strákar úr 10. bekk um orðið. Þeir fóru í pontu og sögðust vilja bæta við nokkru sem hefði gleymst að nefna þegar talað var um námshópana, og það væri „að þakka Styrmi fyrir.“ Og að þeim orðum sögðum stóðu 10. bekkingarnir upp, sneru sér að mér og klöppuðu.
Ég sver það, ef ég væri ekki það gríðarkarlmenni sem ég er, þá hefði ég farið að gráta þar sem ég stóð. ...og ég verð meira að segja svolítið klökkur inni í mér að skrifa um þetta. Og ef einhver af þessum 10. bekkingum skyldi lesa bloggið mitt, þá megið þið vita að mér þykir alveg ofboðslega vænt um ykkur öll og ég gleymi þessu ekki.
En mitt í allri þessari dramatík ber þó helst að þakka alvöru kennurunum þeirra sem eiga allan heiður af því að hafa komið þeim í gegnum 10 ára skólagöngu og hafa aðstoðað við að gera þau að þeim prýðispersónum sem þau eru í dag. Hvað svo sem ég hef gert fyrir krakkana, þá er það bara dropi í hafið á við allt sem alvöru kennararnir hafa gert og því ætla ég, þar sem ég sit hér einn inni á skrifstofu, að standa upp og klappa fyrir þeim. Og þið sem lesið þetta, standið upp og klappið fyrir hvunndagshetjunum okkar.

Fleiri verða þau orð ekki að sinni,

Amen

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home