þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Blog you long time, ten dolla!

Já, ég ætla að blogga. Það er réttast að ég byrji á því að segja svolítið frá Kaupmannahafnarferðinni sem átti sér stað 5.-9. ágúst s.l. Fyrsta daginn vorum við í Christianiu og skemmtum okkur konunglega. Lögreglan er greinilega búin að gera heilmikið átak, því þarna voru engir hasssölubásar eins og síðast þegar ég kom þangað. Kaffihúsin voru þó öll á sínum stað og þar sat fólk í mestu makindum og spilaði kotru og vafði jónur. Á föstudeginum fórum við á Strikið og stúlkurnar versluðu eins og óðar væru. Eftir 20 metra göngu sem fól í sér stopp í fimm búðum gafst ég upp og fór einn að rölta. Ég gekk niður strikið og einu búðirnar sem ég stoppaði í voru bindabúð og verslun með klúra boli. Ég settist auðvitað inn á þá bari sem ég fann og las Reaper Man eftir Terry Pratchett meðan ég kældi mig á drykkjum. Milli þess reyndi ég að vera menningarlegur og fór m.a. í Christiansborg Slot. Ég keypti mér miða til að skoða rústir gamals kastala í kjallara núverandi kastala og ég hef aldrei verið á jafn súru safni. Niðri var niðamyrkur fyrir utan lampa sem lýstu á rústirnar sem voru þó varla rústir. Þarna stóð einstaka steinn yfir steini og reyndi þannig að lýsa því yfir að saman hefðu þeir myndað veggi, en að mestu voru þetta grjóthrúgur og klumpar. Ég hefði kannski notið þessa alls betur ef mér hefði ekki verið heiftarlega mál að kúka allan timann og strunsaði því í gegnum kjallarann og beint á salernið þegar ég hafði áttað mig á að hver steinn líktist þeim næsta.
Fjandinn... nú þegar ég skrifa þetta fatta ég að ég gleymdi að taka mynd af salerninu þarna fyrir bókina mína. Þannig er að þegar ég verð gamall ætla ég að gefa út bók sem heitir Kúkað um heiminn. Síðan ég fékk salmonellu fyrir nokkrum árum hef ég verið ansi virkur í salernisferðum og það gerir það að verkum að í svona utanlandaferðum vill nær alltaf svo til að ég fer á klósettið á þeim stöðum sem ég stoppa á. Þá hef ég með mér myndavél og tek myndir (nei, ekki af lortinum) og ætla að búa til metsölubók síðar meir. Ég er viss um að henni verður vel tekið sem einhverskonar jaðarlist...
Á laugardeginum tókum við lest til Malmö að skoða æskuslóðir Lillýar og Rögnu. Þær bjuggu í Malmö í 3 ár og eiga margar ljúfar minningar þaðan. Þarna var gaman að vera en vespurnar spilltu þó fyrir. Það var einhver faraldur í gagni vegna hitans og ég hef aldrei lent í öðrum eins grút af flugum. Þær voru í ísnum mínum, gosinu mínu, á sólgleraugunum mínum, í hárinu, höndunum og gjörsamlega öllu. Besta ráðið var að vera á ferð og það gerðum við sko á hjólunum sem við leigðum okkur og hjóluðum fram og til baka og virtum fyrir okkur slóðir minninganna. Stelpurnar fundu H&M verslun og slepptu sér en ég fann mér bar og las meira í Reaper Man.
Sunnudeginum eyddum við í tívolíinu sem var æðislegt. Við skemmtum okkur rosa vel í tækjunum og stelpurnar fóru reyndar í fleiri tæki en ég. Ég er meira fyrir rússíbanana og ekki svo mikið fyrir tæki sem snúa manni stefnulaust í hringi til þess eins að færa mann á barm sturlunar. Síðast þegar ég fór í tívolíið fór ég reyndar í turninn (þar sem maður er hífður upp í 60m hæð og látinn falla) og það eina skipti nægði mér fyrir lífstíð.
Á mánudeginum afgreiddum við afgangana, fórum m.a. á Hviids Vinstue (þar sem ég bætti í bókina mína) og í búðir og söfn.
Á heildina litið var þessi ferð í einu orði sagt frábær.

Ég fer náttúrlega ekki í svona reisu án þess að gera mig að fífli að minnsta kosti einu sinni og það gerðist á skemmtistað á föstudagskvöldinu. Þá fóru stelpurnar á dansgólfið og ég skellti mér á barinn. Barborðið var svo breitt að það hefði verið hægt að leggja á það tveggja akreina veg svo ég hallaði mér eins langt fram á það og ég komst og gargaði pöntunina mína yfir borðið. Barþernan hallaði sér líka en heyrði ekki rétt í mér.
„Einn malibú og eitt glas af appelsínusafa?“
„Nei, einfaldan malibú í appelsínusafa!“
„Ha? Eitt glas af appelsínusafa?“
„Nei, EINFALDAN MALIB...“
Þá stoppaði hún mig og tók upp eitthvað tól með handfangi neðan á og beindi að mér enda sem var hringlaga og með einskonar neti fyrir gati. Hún gargaði eitthvað sem mér heyrðist vera „suck this!“ og ég reiknaði strax með að þarna væri komið eitthvað ógurlegt barflipp. Dularfullur drykkur í sprautu sem átti að úða upp í óskiljanlega útlendinginn. Ég hlýddi og bar munninn upp að netinu og bjóst til að sjúga. Þá greip hún tækið furðu lostin frá mér og sneri því við. Þá blasti það við mér að þetta var megafónn. Og það fór ekkert á milli mála þegar hún ýtti á takann og talaði í hann og ég heyrði það tífalt á mínum enda: „I said: Talk into this!“