mánudagur, desember 29, 2003

Ekki spila Mr. and Mrs.!

Ég spilaði þetta spil um daginn við konuna mína, vinkonu hennar og vin minn, sem er kærasti vinkonunnar. Leit ágætlega út í fyrstu með spurningum um uppáhaldsmat og bíómyndir og blablabla... Svo vorum við spurðir hvað við teldum konurnar okkar vera þungar. Það kostaði miklar vangaveltur að finna „öruggar“ tölur og okkur tókst að komast lifandi frá því. Svo kom sprengjan: Hverju heldur þú að konan þín hefði mest gagn af? - fitusogi - andlitslyftingu - kynlífsleiðbeiningabók Hvaða helvítis fáviti bjó þetta spil til?!? Ég og Stóri (vinurinn) áttuðum okkur á raunverulegri merkingu spurningarinnar: Hvar er versti galli konunnar þinnar? - hún er feit - hún er ljót - hún er léleg í rúminu Það var ekki nokkur leið að svara þessu og koma vel út úr því. Við fórum að svitna og skjálfa undir stingandi augnaráði ástmeyja okkar sem vissu jafnvel og við að nú var eitthvað skelfilegt að fara að gerast. Við sættumst samt sem áður báðir á að velja kynlífsbókina, og útskýrðum valið á þann hátt að það er alltaf hægt að fræðast meira. Við útskýrðum valið í hræðslukasti og enginn var drepinn. En ég sór það með sjálfum mér að þetta spil verður aldrei aftur tekið upp á þessu heimili. ---- Á þessum nótum, þá eru tvær sögur sem koma upp í hugann þegar ég fer að hugsa um vandræðalegar aðstæður með frúnni. Á árdögum sambands okkar vorum við heima í stofu hjá foreldrum hennar að ræða um daginn og veginn. Svo barst talið að skemmtistöðum, viðreyningum og afbrýðisemi. Við fórum að ræða hvernig við tökum á því þegar annað fólk er að reyna við makann. Hún sagði mér að henni væri sama hver reynir við mig, svo lengi sem hún sé ekki sæt. Og ég svaraði með: „Ég vil engar sætar stelpur, ég vil bara þig.“ Við tók nokkurra sekúndna þögn þar sem við vorum bæði að átta okkur á því sem ég var að segja en ég varð fyrri til að fara í: „Nei, nei, nei!! Ég meina sko.... hérna, þú veist.. æi! Sko..“ og svo framvegis þar til ég hafði útskýrt fyrir henni að stundum er munnurinn á mér hlaupinn af stað áður en heilinn er kominn í skóna. En for the record, þá er konan mín fallegust í heiminum. :-) Svo gerðist það einusinni að við vorum í einhverju koddahjali heima hjá okkur og vorum að tala um ást á kvikmyndastjörnum. Hún er yfir sig hrifin af Sean Connery og ég setti upp tilbúnar aðstæður. Hún sæti á bar og til hennar kæmi Sean Connery. Hann gæfi sig á tal við hana og upp úr krafsinu kæmi að hann væri dauðvona og væri tilbúinn að arfleiða hana að öllu sem hann ætti ef hún vildi eyða með honum síðustu mánuðum lífs hans. Hún sagðist strax aldrei myndu gera slíkt, enda gætu allir peningar heimsins ekki fengið hana til að vera með öðrum en mér. Þá var það afgreitt og við lágum og horfðum á loftið. Upp úr þögninni segir hún svo: „En ef þetta værir þú og Jennifer Love-Hewitt?“ Ég hikaði í 2 sekúndur og á þeim tíma hafði ég undirritað dauðadóminn minn, tekið mér skóflu í hönd og grafið mig niður í dýpsta skítahaug heims. Eftir hikið var sama hvað ég sagði, ég tók mér samt þessar tvær sekúndur til að velta málinu fyrir mér, þó ég hafi nú reyndar sagt að ég hafi notað þær til að raða saman orðunum í huganum svo ég gæti neitað þessu á eins staðfastan og hægt væri. En skaðinn var skeður... Ég hef ekki horft á mynd með henni síðan. En það er þó lán að Lillý mín er eins yndisleg og stúlkur verða, þannig að hún verður mér aldrei alvarlega reið. Það er líklega það sem hefur orðið mér til lífs, því ég er snillingur í að segja og gera heimskulega hluti.

mánudagur, desember 22, 2003

Góður dagur að kveldi kominn

Ég er búinn að taka því nokkuð rólega í dag. Þreif ískápinn og soleis og eldaði svo kjúkling fyrir Lillý, Ellert og Rögnu. Er einmitt núna að japla á upphituðum leifum. Uppáhalds frændi minn (annar af tveim uppáhaldsfrændum - breytt eftir ábendingu frá hinum uppáhaldsfrændanum), Grétar, kíkti í heimsókn. Tók með sér frúna og vinapar. Hann var á rúntinum í Reykjavík og kastaði svo fram þeirri hugmynd að keyra í Keflavík í kaffi til mín. Fólkið í bílnum hélt náttúrlega að hann væri að grínast, enda er það ekki fyrir hvern sem er að heimsækja Keflavík, Mekka menningar á Íslandi. En jú, honum var fúlasta alvara og þau fengu öll að vera þerrar gæfu aðnjótandi að sækja Keflavík heim. Hann hringdi í mig og ég hellti uppá. Þetta var í annað skipti sem ég helli uppá kaffi fyrir gesti. Ég hef alltaf tuðað í Lillý til að gera það fyrir mig en um daginn var kominn tími til að prófa þetta. Það tók ekki nema tvær tilraunir og þrjú símtöl til Lillýar að búa til mannsæmandi skammt af kaffi. Eða... ég vona allavega að þetta hafi verið mannsæmandi... Ég þekki ekki muninn á góðu og vondu kaffi því í bollanum er jafnan fjórðungshlutfall af sykri. Enjá.. þetta var mjög fínt. Við sátum fram eftir kvöldi og spjölluðum um daginn og veginn og umræðurnar fóru alla leið frá því að vera um kennisetningar trúarbragða og yfir í vangaveltur um leiðindin við það að frussa kúk við rassmök. Sannarlega lærdómsríkt kvöld fyrir hvern þann sem hlustaði. Sjónvarpið var stillt á Sky og á meðan á heimsókninni stóð byrjaði þáttur sem fjallar um kynlífsheimsmet. Viðfangsefni þáttarins var að finna kvenmann með sem stærstan besefa. Ég horfði á þetta með öðru auganu í fyrstu vegna þess að þarna voru ansi myndarlegar stúlkur en það breyttist svolítið þegar þær lyftu pilsunum og slátrið kom í ljós. Þá sátum við öll opinmynnt og reyndum að átta okkur á því hvað væri eiginlega að gerast og ég leitaði að fjarstýringunni og þakkaði mínum sæla í hljóði fyrir að þetta voru ekki foreldrar mínir sem sóttu mig heim þetta kvöld. Nú er kjúklingurinn búinn, limakonurnar horfnar úr huga mér og ég held að mér sé óhætt að fara að sofa án þess að búast við því að vakna æpandi og sveittur um miðja nótt eftir að dreyma limakonur. 10-4 Over and out.

fimmtudagur, desember 11, 2003

Morgunhanar og kettir

Aldrei þessu vant vaknaði ég fyrir 8 í morgun. Ég færði mig inn í tölvuherbergi og fór að flokka e-mail. Litla vinnan. Hér um bil 3000 e-mail sem ég hef aldrei nennt að gera neitt af viti við og þarf að fara í gegnum og flokka eftir innihaldi. Semsagt í vinnutölvunni. Sofnaði í hádeginu og vaknaði við breim í kattarógeðinu sem heldur stundum til hérna fyrir utan. Ég hef ekkert á móti köttum, sko. Ég á einn sjálfur. En allir kettirnir í hverfinu verða sjáfkrafa kattarógeð því þeir eru sífellt að ráðast á köttinn minn. Ég ákvað fyrir nokkru að segja hverfisköttunum stríð á hendur eftir að ég vaknaði eina nóttina við að einn var kominn inn í svefnherbergi til mín og réðist á Tristan (köttinn minn) þar sem hann lá sofandi. Leiðin inn var ekki erfið þar sem ég hef alltaf opinn glugga í vinnuherberginu mínu til að Tristan komist inn og út að vild. Ég rauk þarna á fætur klukkan 4 að nóttu og greip Tristan í fangið og henti honum inn á bað til að hann væri ekki að blanda sér í slaginn, sem nú var á milli mín og boðflennunnar. Ég hljóp inn í herbergi og hún Lillý mín sat í öngum sínum á rúminu og sagði mér að kötturinn væri undir rúmi. Ég greip það sem hendi var næst og reyndist vera handklæði og lagði til hans af öllu afli. Kvikindið flaug undan rúminu og spólaði af stað því hann hafði greinilega áttað sig á því að hér var um líf og dauða að tefla. Ég hljóp á eftir honum á nærbuxunum og fyllti könnu af vatni meðan ég heyrði ófétið spóla í gegnum vinnuherbergið mitt og út að glugga. Ég ruddist út um bakyrnar sem liggja út á pall og þaðan í garðinn og argaði á kvikindið meðan ég gusaði úr könnunni í allar áttir og barði mér á brjóst. Ég hafði fundið dýrið í mér. Þarna stóð ég á nærbuxunum úti í garði og öskraði á kött að nóttu og lét allan heiminn vita að þessi innrás á yfirráðasvæði mitt og Tristans væri stríðsyfirlýsing. Kettirnir í hverfinu virtust heyra í mér, því síðan þetta gerðist (fyrir um mánuði síðan) hefur stemningin í hverfinu breyst. Kettirnir sem búa hér í kring eru farnir að færa sig upp á skaftið og koma reglulega upp á pallgirðinguna hjá mér til að búa til vandræði. Núna hef ég alltaf dregið frá einum glugga í stofunni þegar ég horfi á sjónvarpið og annað augað dvelur á girðingunni. Ég tileinkaði mér eina könnu sem ég geymi fulla af vatni við dyrnar út á pall. Mörg kvöld í röð eftir þetta komu kettir upp á pallinn og fengu allir sömu meðferðina. Ég stökk upp af sófanum með látum og rauk út með könnuna og lét vaða á þá. Mér hefur ekki enn tekist að hitta því þeir eru einfaldlega of snöggir. Þetta er farið að minna svolítið á þjóðvegarollur sem bíða við kantinn og spæna svo yfir einmitt þegar þær sjá bíl nálgast. Þeir eru kannski bara að búa til hasar. Svona gekk þetta í nokkra daga og allt virtist vera að róast. Kettirnir komu sjaldnar og vatnið í könnunni var farið að setjast. Þar til eitt kvöld, að ég og Tristan sátum saman og horfðum á sjónvarpið þegar ég sé allt í einu bregða fyrir svörtum skugga á stofugólfinu. Tristan áttaði sig á undan mér og rauk á fætur til að tæta í sig þennan kött sem valsaði inn í stofuna eins og hann ætti heima þarna. Ég greip Tristan á fluginu úr sófanum og hljóp með hann inn á klósett. Þetta var minn bardagi. Svarti kötturinn fann eflaust reiðina í loftinu því hann hljóp bak við sófa og djöflaðist þar eins og í leit að útgönguleið. Ég stormaði inn í stofuna og endurinnréttaði hana á mettíma. Ég dró borð og stóla út á gólf og dró sófana sömu leið. Þegar ég bjóst til að grípa kvikindið og sýna honum hver væri húsbóndi á þessu heimili fann ég skyndilega að það var ekki aðeins reiði í loftinu, heldur líka logandi hræðsla. Ég bakkaði og opnaði palldyrnar og ákvað að gefa greyinu allavega færi á að flýja og halda feldinum. Hann áttaði sig á þessari skyndilegu góðmennsku og vissi, jafn vel og ég, að hún myndi ekki endast lengi ef hann færi ekki út. Hann hljóp út í myrkrið og leit aldrei við. Heimsóknirnar á pallgirðinguna byrjuðu aftur. Ég ákvað að binda enda á þetta í eitt skipti fyrir öll og bjóst til vopna. Ég fann mér sterklega teygju og bjó til skot úr samanbrotnum pappír. Sat lengi og velti fyrir mér aðferðum og eyddi löngum kvöldum brjótandi saman pappír og tyggjandi hann með tryllingsglampa í augum til að búa til sem þéttust og langdrægust skotfæri. Nokkrum dögum síðar kom stóra tækifærið mitt. Tristan var að lenda í hóplagsmálum. Einu sinni sem oftar fór ég út á pall og horfði yfir hverfið til að sýna köttunum í nágrenninu að ég væri hér enn og alls ekki að fara. Hinu megin við götum stóð Tristan og hvæsti á mun stærri kött og tveir aðrir voru að sniglast í kring til að átta sig á því með hverjum þeir ættu að halda. Ég kveikti mér hlakkandi í sígarettu og tók vopnin upp úr vasanum. Ég stökk yfir girðinguna og gekk í áttina að þeim. Tristan sá mig koma og kom á móti mér, vitandi að nú væri öllu óhætt. Hinn kötturinn elti ekki og ég og Tristan gengum saman til baka og heim að pallinum. Tristan virtist ekki sáttur við þessar málalyktir og snerist á hæl og hljóp á fullri ferð inn á óvinasvæðið. Með miklu hugrekki stökk hann með allar klær úti á þennan miklu stærri kött og sló hann í jörðina. Ég stóð hinu megin götunnar og fylgdist með því þegar Tristan hljóp að þessu loknu aftur í áttina að mér og á bakvið mig. Stóri kötturinn elti og var svo blindaður af reiði að hann sá mig ekki fyrr en það var of seint. Hann spólaði í hring í grasinu og horfði skelfingu lostinn á tvær útréttar hendur og einbeitt auga sem miðaði. BLAMM! Nokkrum dögum síðar sá ég hvar þessi sami köttur var að sniglast neðar í götunni þegar ég stóð á pallinum og var að fylgjast með Tristan leika sér. Þeir sáu ekki hvor annan fyrr en þeir mættust fyrir horn. Tristan setti samstundis upp kryppuna en hinn gaf sér ekki tíma til þess. Reynslan hafði kennt honum að þetta var rangur köttur til að abbast upp á. Hann tók samstundis stóran sveig framhjá Tristani og forðaði sér. Tristan fylgdist með honum hverfa inn í húsagarð og hélt áleiðis heim. Hann klifraði upp á pallinn til mín og malaði. Enginn köttur hefur síðan látið sjá sig á pallinum mínum og Tristans.