föstudagur, apríl 28, 2006

Töfrandi tónleikar

Í gær fór ég á tónleikana Manstu gamla daga? með Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt Ragnheiði Gröndal og Eivøru Pálsdóttur. Þegar ég kom á tónleikana sá ég mér til mikillar gleði að kynnir var Ragnheiður Ásta Pétursdóttir, útvarpsþula til margra ára. Hún er konan sem ásamt Sigvalda Júlíussyni hefur óskað mér og öðrum landsmönnum gleðilegra jóla svo lengi sem ég man. Hún er einnig ekkja Jóna Múla Árnasonar og fjölkunnug um gömlu tímana og tónlistarmennina og því var hrein unun að hlusta á hana kynna lögin og höfundana. Í hvert skipti sem lag endaði beið ég spenntur eftir því að Ragnheiður Ásta hefði upp raust sína. Röddin hennar finnst mér eins og mjúkur koddi eftir erfiðan dag. Eins og heitt súkkulaði á köldum degi.
Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja eða hvernig ég get farið að því að koma öllu frá mér sem mig langar að segja um þessa tónleika. Þeir voru alveg hreint dásamlegir. Ragnheiður Gröndal var sykursæt og flauelsmjúk eins og hennar er von og vísa og Eivør, sem ég hef ekki séð áður á tónleikum, söng af þvílíkum krafti og innlifun að á köflum stóð ég sjálfan mig að því að halda niðri í mér andanum meðan hún söng, svo agndofa var ég og einbeittur. Þó Eivør hafi kallað fram í mér gæsahúðina var Ragnheiður engu síðri og saman voru þeir eins og draumur.

Útsetningarnar voru líka rosalegar. Ef ég gengi með hatt tæki ég ofan fyrir Hrafnkeli Orra Egilssyni fyrir frammistöðu hans við útsetningarnar. Ég vissi ekki á hverju ég ætti von, en vá... þessu hefði mig ekki órað fyrir.

Ef þessir tónleikar verða einhverntímann sýndir í sjónvarpinu mun ég prívat og persónulega rassskella hvern þann sem ekki tekur kvöldið frá til að fylgjast með því.

mánudagur, apríl 24, 2006

Meira um prestamálin

Eins og flestir íbúar Reykjanesbæjar hef ég fylgst með þeim styr sem staðið hefur um skipun í embætti sóknarprests í Keflavíkurkirkju. Skipað hefur verið í embættið og málinu ætti þar með að vera lokið, en stuðningsmenn séra Sigfúsar halda áfram að ausa biturð sinni í allar áttir, nú síðast með ásakandi skrifum um bréf verkefnastjóra upplýsingamála þjóðkirkjunnar, þar sem hún gerir athugasemdir við rangar fullyrðingar ritstjóra. Skrif talsmanna hópsins finnst mér bera vott um sparðatíning og barnaskap og svona skrif væru ekki svara verð, nema ef þá helst til að leiðrétta þá sem mynda sér skoðanir út frá svona áróðursskrifum.
Ég birti hér valda hluta úr bréfi stuðningsmanna og mínar athugasemdir við þá.

„Verkefnisstjórinn gerir mjög lítið úr öllum þeim fjölda, sem skrifaði undir yfirlýsingu um að séra Sigfús yrði sóknarprestur. Síðan leitar hún logandi ljósi að smá hnökrum sem finna má að undirskriftarlistanum...“
Hvergi er sjáanleg minnsta tilraun til að gera lítið úr þeim fjölda sem skrifaði á listann, en það sem hún gerir hins vegar - og réttilega - er að benda á hnökra á listanum. M.a. þá að ekki var óskað eftir kennitölum þeirra sem á listann skrifuðu, auk þess sem heimilisföng undirritaðra voru oft utan sóknarinnar.

„Það er fundið að því að fáeinir sem skrifuðu undir listann hefðu haft heimilisfang í annarri kirkjusókn. En margir þeirra hafa einmitt notið starfa séra Sigfúsar auk þess sem hópurinn tekur ekki að sér að ritskoða listann ef frá er talið að hvert nafn á listanum er aðeins talið einu sinni.“
Þrátt fyrir að stuðningshópurinn leyfi öllum nöfnum að vera á listanum en taki bara út tvítekningar og platnöfn fullyrða Víkurfréttir, bæði í fréttum og ritstjórnarpistli að hér sé um að ræða ákveðið hátt hlutfall sóknarbarna í Keflavíkursókn. Auðvitað gerir maður athugasemd við slík vinnubrögð. Skrif verkefnisstjórans voru aðallega athugasemdir við ritstjórnarpistil Víkurfrétta, ekki árás á vinnubrögð stuðningshópsins, þó margt megi við þau athuga.
Frá mínum bæjardyrum séð eru vinnubrögð Víkurfrétta þegar snýr að þessu tiltekna atriði annað af tvennu: Slæleg blaðamennska eða áróðursstarfsemi.

„Við viljum benda Biskupsstofu á eftirfarandi atriði varðandi undirskriftarlista: [Atriði sem ekki er svarað eru tekin út]
- Óheimilt er að safna kennitölum á netinu.
- Stuðningshópurinn keypti engar auglýsingar til að auglýsa undirskriftalistann. ...“

Ég vil benda stuðningshópnum og öllum þeim er þetta lesa á eftirfarandi atriði:
-Heimilt er að safna kennitölum á netinu, þjóni það málefnalegum tilgangi. Ég bar þetta undir lögfræðing persónuverndar og hann sá ekki annað en að það ætti að vera í lagi.
- Það er rétt að stuðningshópurinn keypti engar auglýsingar, enda sá stærsti fjölmiðill á suðurnesjum þeim fyrir ókeypis auglýsingum, og það í engu smá magni. Ekki var nóg með að birtur var auglýsingaborði á forsíðu Víkurfréttavefsins, heldur birti blaðið 5 fréttir um undirskriftalistann á þeim fjórum sólarhringum sem hann var uppi og í 4 af fréttunum var vísun í listann ásamt yfirlýsingunni sem listanum fylgdi. Auk þess hefur verið sterkur áróðursfnykur af öllum skrifum blaðsins. M.a. birtist á vef Víkurfrétta frétt um það hverjir meðlimir sóknarnefndar væru, að því er virtist skrifuð í þeim eina tilgangi að valda meðlimum nefndarinnar ónæði. Þessi frétt er því miður horfin af vef blaðsins, enda hafa þeir væntanlega fundið fnykinn sjálfir, komnir svona langt yfir strikið.
Hægt er að halda því fram að svona mikil umfjöllun um málið hafi verið réttlætanleg. Ég get samþykkt að mikil umfjöllun um stórvægileg mál er fullkomlega eðlileg, en hægt er að skoða málin frá fleiri en einu sjónarhorni og á fleiri en einn máta. Ekki bara með endurteknum textaafritum af síðu stuðningsmanna og uppfærðum fjölda.

„Á fjórum sólarhringum söfnuðust um 4431 undirskrift til stuðnings séra Sigfúsi eða rúmlega 75% sóknarbarna. Þrátt fyrir að mikill meirihluti sóknarbarna séu einhuga um hvern þau vilja velja, var það ekki nægilegur fjöldi til að hafa áhrif á niðurstöðuna.“
Þetta er hreinlega ekki rétt. Í Keflavíkursókn voru 7980 sóknarbörn 1. desember árið 2004. Þar af voru 5491 þeirra gjaldandi (16 ára og eldri) og það er fjöldinn sem stuðningshópurinn miðar við. Í ljósi þess að engin aldurstakmörk voru á undirskrifalistanum er réttara að miða við heildarfjölda og þá er hlutfallið 55%. Og þar sem þeir sem rituðu nafn sitt (eða annarra - í þökk eða óþökk) þurftu ekki að vera sóknarbörn getum við ekki annað en efast - jafnvel um þessa nýju útreikninga.

Þar höfum við það. Ég hef haft uppi ákveðnar samsæriskenningar um val sóknarprestsins, hvort sem þær eru réttar eða rangar, en það verður bara að koma í ljós. Prestsfrúin neitar því staðfastlega að hún komi til greina í starf sýslumannsins okkar og auðvitað verðum við að trúa manneskju í stöðu eins og hennar. Hún hefur það semsagt gott á Ísafirði og hefur ekki enn sagt starfi sínu lausu. Kannski munu leiðir þeirra skilja með haustinu?

mánudagur, apríl 10, 2006

Séra og séra

Það er talsvert rifist hér í bæ þessa dagana um réttmæti þess að valnefnd Keflavíkurprestakalls mælti ekki með sr. Sigfúsi B. Ingvasyni í embætti sóknarprests eftir 13 ára starf sem aðstoðarsóknarprestur. Bæklingum er dreift í hús og auglýst í fréttamiðlum þar sem fólk er beðið að skrifa undir mótmæli á netinu. Það eru auðvitað nokkrar hliðar á öllum málum. Ég held að stærsti áhrifavaldurinn sé pólitík. Sr. Skúli Sigurður Ólafsson, sem valnefndin mælir með, er sonur herra Ólafs Skúlasonar, fv. biskups íslands. Sr. Skúla vantar sárlega vinnu þar sem hann missir brátt þá stöðu sem hann gegnir nú á Ísafirði í afleysingum fyrir sr. Magnús Erlingsson.
Málið er samt ekki svona einfalt. Þannig vill til að Jón Eysteinsson, sýslumaður í Keflavík, lætur af störfum vegna aldurs í janúar nk. Eins heppilegt og það er, þá er kona sr. Skúla sýslumaður á Ísafirði og með því að flytja þau hjón hingað er búið að leysa bæði presta- og sýslumannsþörfina hér í bæ. Gefur auga leið.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Hötum hatarana.

Eflaust muna einhverjir pósti sem hefur ferðast um internetið síðan 2004 og sýnir lítinn dreng mgð handlegginn við bíldekk. Þetta var myndasyrpa sem var ýmist send sem einstaka myndir, myndband eða PowerPointskjal og skv. upplýsingum sem fylgdu var verið að refsa drengnum fyrir að stela brauðhleif. Sjáið þetta hér.
Fyrir það fyrsta var nokkuð ljóst að ekki var allt með felldu þar sem upprúllað teppi studdi við hönd drengsins. Ef ég væri að fara að refsa einhverjum með því að keyra yfir höndina á viðkomandi myndi ég ekki setja teppi undir höndina svo hann rispaði sig ekki á malbikinu. Svo hefur eigandi síðunnar sem sýndi þessar myndir upphaflega sagt að þetta hafi ekkert með refsingu að gera, heldur hafi þetta verið götuatriði þar sem fólk var að reyna að verða sér úti um peninga.
Textinn sem sést í upphafi myndbandsins er svo fordómafullur að ég gæti gubbað. Og ég gæti líka gubbað af gremju vegna alls fólksins sem trúir þessu og hatar jafnvel heilan trúarhóp út af svona lygi.

----------

Spáum aðeins í nokkrum hlutum:

Þegar gyðingur safnar skeggi er það í samræmi við trú hans
...en þegar múslimi gerir það er hann öfgamaður og hryðjuverkamaður.

Þegar nunna hylur sig frá toppi til táar er það til að helga sig guði sínum
...en þegar múslimakona gerir það er það vegna þess að hún er kúguð.

Þegar vestræn kona er heimavinnandi er hún virt vegna þeirra fórna sem hún færir fyrir fjölskylduna og heimilið
...en þegar múslimakona gerir það, þá þarf að frelsa hana.

Hvaða stelpa sem er getur farið í skóla íklædd því sem hún vill því það er hennar réttur og frelsi
...en þegar múslimastúlka er í Hijab er henni meinuð innganga.

Þegar barn helgar sig viðfangsefni hefur hann von um bjarta framtíð
...en þegar hann/hún helgar sig Íslam, þá er hann/hún vonlaus.

Þegar Kristin manneskja eða Gyðingur drepur einhvern er hvergi minnst á trú, en ef múslimi er ákærður fyrir glæp er það Íslam sem fer fyrir rétt.

Þegar vandi steðjar að þiggjum við allar lausnir. En ef lausnin liggur í Íslam, neitum við að líta á hana.

Þegar einhver ekur góðum bíl á slæman hátt kennir enginn bílnum um
...en þegar múslimi gerir mistök eða gerir öðrum illt, þá segir fólk að Íslam sé ástæðan.

Án þess að skoða og kynna sér Íslam trúir fólk bara því sem blöðin segja.


_______________________________________
Og nú nokkrar misgagnlegar staðreyndir:

Jörðin er eina plánetan sem ekki heitir eftir heiðnum guði.
Fyrsta varan til að bera strikamerki var Wrigley's tyggjó.
Það er ekki hægt að brjóta blað saman oftar en sjö sinnum.
Vænghaf Boeing 747 þotu er lengra en fyrsta flug Wright bræðra.
Epli eru mun betri en koffín til að vekja þig í morgunsárið.