föstudagur, apríl 28, 2006

Töfrandi tónleikar

Í gær fór ég á tónleikana Manstu gamla daga? með Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt Ragnheiði Gröndal og Eivøru Pálsdóttur. Þegar ég kom á tónleikana sá ég mér til mikillar gleði að kynnir var Ragnheiður Ásta Pétursdóttir, útvarpsþula til margra ára. Hún er konan sem ásamt Sigvalda Júlíussyni hefur óskað mér og öðrum landsmönnum gleðilegra jóla svo lengi sem ég man. Hún er einnig ekkja Jóna Múla Árnasonar og fjölkunnug um gömlu tímana og tónlistarmennina og því var hrein unun að hlusta á hana kynna lögin og höfundana. Í hvert skipti sem lag endaði beið ég spenntur eftir því að Ragnheiður Ásta hefði upp raust sína. Röddin hennar finnst mér eins og mjúkur koddi eftir erfiðan dag. Eins og heitt súkkulaði á köldum degi.
Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja eða hvernig ég get farið að því að koma öllu frá mér sem mig langar að segja um þessa tónleika. Þeir voru alveg hreint dásamlegir. Ragnheiður Gröndal var sykursæt og flauelsmjúk eins og hennar er von og vísa og Eivør, sem ég hef ekki séð áður á tónleikum, söng af þvílíkum krafti og innlifun að á köflum stóð ég sjálfan mig að því að halda niðri í mér andanum meðan hún söng, svo agndofa var ég og einbeittur. Þó Eivør hafi kallað fram í mér gæsahúðina var Ragnheiður engu síðri og saman voru þeir eins og draumur.

Útsetningarnar voru líka rosalegar. Ef ég gengi með hatt tæki ég ofan fyrir Hrafnkeli Orra Egilssyni fyrir frammistöðu hans við útsetningarnar. Ég vissi ekki á hverju ég ætti von, en vá... þessu hefði mig ekki órað fyrir.

Ef þessir tónleikar verða einhverntímann sýndir í sjónvarpinu mun ég prívat og persónulega rassskella hvern þann sem ekki tekur kvöldið frá til að fylgjast með því.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home