þriðjudagur, júní 27, 2006

Fluttur

Ég er búinn að flytja bloggið mitt. Blogger var ekki alveg að gera það þannig að ég ákvað að feta nýjar brautir og hef opnað blogg hjá WordPress.

Nýja slóðin er drumatix.wordpress.com

sunnudagur, júní 25, 2006

Nokkrar góðar myndir úr ljósmyndakeppni














föstudagur, maí 12, 2006

Landssíminn viss í sinni sök

Fyrir nokkru síðan sendi ég eftirfarandi bréf á Landssímann.

„Góðan dag.
Ég er tengdur hjá Internetþjónustu Símans og er ekki ánægður með þá þjónustu sem ég kaupi. Fyrir 3.990,- á mánuði fæ ég hjá ykkur 1 Mb tengingu og 1GB í niðurhal. Fyrir skömmu hringdi fólk á vegum Hive í mig og bauð mér tengingu við þau fyrir sama pening, nema þá fengi í 4GB í niðurhal og 8 Mb tengingu. Fyrir utan það myndi ég greiða 1,99 fyrir hvert MB umfram 4 GB en hjá ykkur greiði ég 2,50 fyrir hvert MB umfram 1 GB.
Ég afþakkaði þetta á sínum tíma, aðallega vegna þess að ég nenni ekki að skipta um netfang. Ég hef skipt áður um internetþjónustu og þá tók við leiðindavesen við netfangaskipti og ég hreinlega nenni því varla aftur. En undanfarið hef ég spurt sjálfan mig hvort það sé kannski þess virði. Ef ég hefði skipt í síðasta mánuði væri ég búinn að spara mér rúmar 3.000 krónur sem ég þarf nú að greiða ykkur fyrir umframgagnamagn. Þess vegna hef ég nú verið að skoða aðra möguleika og niðurstöðurnar hafa satt að segja komið mér á óvart. Fyrir utan Vodafone virðast nær allar Internetþjónustur vera betri kostur en þið. Ýmist hvað varðar verð á umframgagnamagni eða mánaðarverð almennt.
Þá get ég ekki annað en spurt: Hvernig stendur á því að fyrirtæki sem kallar sig framsækið er ekki komið lengra á veg í verðlangningu og virðist vera að tapa því stríði fyrir t.d. 6 starfsmanna internetveitu á Ísafirði?
Og stóra spurningin sem ég furða mig á að allir hafi ekki spurt sig: Hvað er það sem réttlætir áframhaldandi viðskipti mín við ykkur? Hvers vegna eruð þið betri kostur en t.d. Snerpa, Netsamskipti, BTnet, HIVE eða næstum hver sem er?

Kveðja,
Styrmir B.“


Það stóð auðvitað ekki á svarinu frá Landssímanum. Þau skrifuðu bréf sem byrjaði svona:

„Sæll Styrmir.
Við erum að bjóða upp á ýmsar leiðir til okkar viðskiptavina.“


Svo fylgdi löng romsa sem var afrituð beint af sparileiðasíðunni þeirra og átti ekkert skylt við erindi mitt, ef frá er talin Internetsparileiðin þeirra, sem er akkúrat það sem ég er að nota og er ósáttur með.
En í lok bréfsins kom gullmolinn:

„Við höfum ekki verið að lækka okkar verð í samræmi við önnur verð hjá öðrum fyrirtækjum því að við teljum okkur vera með betri þjónustu eins og t.d. við erum með opið allan sólarhringinn og faglært fólk sem hjálpar viðskiptavinum ef eitthvað er og einnig erum við með stöðugri tengingar á Adsl línum okkar.
Við bjóðum okkar viðskiptavinum upp á að fá sjónvarp um Adsl á línuna og það er ekkert stofngjald á því og þú færð einn mánuð af erlendum rásum frítt með og ávalt er opið fyrir video leiguna þó svo að það sé engin áskrift á lyklinum.
Endilega hafðu samband aftur ef þig vantar fleiri upplýsingar um okkar þjónustu og verð.“


Það væri nú gaman að heyra frá viðskiptavinum og jafnvel starfsfólki annarra internetveitna, hvort þetta sé raunin. Er Landssíminn það mikið betri en allir aðrir að þeir geta í krafti þess rukkað meira? Eða er Landssíminn kannski bara að rukka meira vegna þess einfaldlega að þeir komast upp með það?

-----
Viðbót:
Í tilefni af því sem einn sagði í kommentakerfinu um lélega svörun í þjónustuverum ákvað ég til gamans að hringja í stóru fyrirtækin og athuga hve langan tíma það tæki mig að fá samband við mennska rödd en ekki maskínu. Á eftir þeim stóru prófaði ég Snerpu, svona til að fá samanburð, og þetta eru niðurstöðurnar:
Landssíminn: 3:46
OgVodafone: 3:55
Snerpa: 0:04

miðvikudagur, maí 10, 2006

Fermingarlágkúrunni lokið

Jæja, þá er fermingartímabilinu loks lokið. Það held ég að minnsta kosti, því ég hef ekki orðið var við neinar fermingar nýlega. Ég er alltaf svolítið feginn þegar þetta er allt afstaðið. Ég er kannski að eldast og fyllast einhverju eilífðarhnussi út í samfélagið, en með hverju árinu finnst mér þetta verða meiri lágkúra. Nú er ég að tala um það hvernig við kaupum lítil börn inn í trúfélög og þá aðallega þjóðkirkjuna.
Hvert sem maður lítur sér maður börnin lofa guð sinn og vitna í Biblíuna til að sannfæra sig, prestinn og alla í kring um að þau hafi sannarlega séð ljósið en séu ekki bara í þessu gjafanna vegna. Sum börnin játa það reyndar og ég verð að gefa þeim plús fyrir það. Hvernig getur maður áfellst barn fyrir að taka svo auðvelda ákvörðun sem fermingin er gegn tugþúsunda eða jafnvel hundruða þúsunda króna greiðslu? Já,
ferming er auðveld ákvörðun. Ég fermdist og ekki er ég annar maður fyrir vikið. Ég tók við mínu mútufé, sagði já við altarið, át mína oblátu og hef aldrei sést í kirkju síðan. Þ.e. ef frá eru talin þessi skipti sem maður verður að mæta, svo sem í giftingar, jarðarfarir og skírnir, en það er bara formsatriði. Þá lít ég á kirkjuna eins og hvern annan veislusal og presturinn er veislustjórinn.
Best að árétta það áður en lengra er haldið að ég er ekki að áfellast fermingarbörnin , heldur samfélagið allt. Þegar ég fermdist var ég barn og lít ekki heiminn sömu augum þá og nú.

Stöldrum aðeins við þessa hugsun. Það er deginum ljósara að fjórtán ára barn hefur allt aðra sýn á veröldina en manneskja sem er til dæmis, tja, átján ára. Átján ára fólk er kannski ekki svo fullorðið, en þó orðið sjálfráða og ætti því að vera treystandi fyrir ákvörðunum sem varða líf þeirra. Nema auðvitað ef þau vilja drekka, en það er nú annað mál. Hvers vegna er fermingaraldurinn ekki hækkaður upp í 18 ár? Svarið er einfalt. Vegna þess að þá myndi fermingum snarfækka, segja einhverjir. Kannski. En erum við minna gráðug átján ára en við erum fjórtán ára? Það hugsa ég ekki. Ef mér væri í dag boðin kvartmilljón (sem sum fermingarbörn fá í samanlögðum gjöfum) fyrir að fermast myndi ég gera það án þess að hugsa mig um. Ég myndi skrá mig aftur í þjóðkirkjuna, þiggja blessun, þiggja peninga og skella mér svo til Arúba með familíuna. Skrá mig svo bara aftur úr þjóðkirkjunni þegar ég kem heim og málið er dautt. Ég skal fermast á hverju ári ef ég fæ alltaf gjafirnar.

Hvers vegna gerum við þetta? Hvers vegna þurfum við að kaupa börnin okkar til að játa trú? Trú sem við búum ekki einu sinni sjálf yfir. Íslendingar eru kristin þjóð að nafninu til en við vitum sem er að kirkjugestir á venjulegum sunnudegi gætu ekki einusinni skipað lið í fótboltaleik ef veðrið væri gott. Vítaspyrnukeppni í besta falli. Við kaupum börnin í þetta vegna þess að það er eina leiðin. Ekki er trúarvakningunni fyrir að fara á heimilunum í landinu, þó auðvitað sé það hjá einvherjum, en það er undantekning frekar en venja. Börnin fermast ekki til að staðfesta trúna sem þau eiga að vera alin upp í ef foreldrarnir halda það loforð sem þeir gefa við skírn. Þau fermast til að fá peninga. Til að tilbiðja guð sinn, Mammon. Mammonstrú er það sem við höldum að börnunum okkar með því að halda áfram þessari fermingarsvívirðu. Við kennum þeim að morgni fullorðinsáranna að það sé allt í lagi að taka ákvörðun, sem skv. kirkjunni er ein sú mikilvægasta sem þú tekur á ævinni, svo lengi sem peningarnir séu nógu miklir. Skv. viðtekinni venju er í lagi að ljúga að prestinum, sjálfum sér og öllum í kring. Að ljúga í kirkjunni upp í opið geðið á Guði, vegna þess að maður fær svo fjandi vel borgað fyrir það.

Börnin fermast ekki vegna þess að þau vilja það, heldur því allir hinir eru að gera það. Ef eitt barn fermist ekki verður það öreigi meðal jafnaldra sinna. Borgaralegar fermingar eru örvæntingarfullar tilraunir trúleysingja og meðvitaðra borgara til að sporna gegn þessum magninkaupum kirkjunnar á börnum í söfnuðinn. Engin trú í spilinu. Bara kynfræðsla, eineltisumræða, popp og vídjógláp og svo fullt af peningum. Þetta á að vera valkostur fyrir sjálfstætt þenkjandi börnin, en er samt eitthvað svo hálfvitalegt. Þrátt fyrir borgaralegar fermingar tekur sama geðveikin við. Meira að segja Ásatrúarfélagið er farið að bjóða upp á einhverskonar innvígslu svo þeirra börn fari nú ekki að játa trú á Jesú fyrir peninga, ef þeim skyldi ekki lítast nógu vel á borgaralegu ferminguna. Við virðumst vera að gefast upp fyrir Mammonsboðskapi samfélagsins og kirkjunnar. Já, kirkjunnar. Ef þeir vildu fá til sín meðlimi á réttum forsendum væru kirkjunnar menn með háværar fordæmingar í garð gjafaflóðsins og myndu einnig hækka fermingaraldurinn í eitthvað gáfulegra en fjórtán ár.

Lágkúran náði hámarki fyrir mér þegar ég heyrði af fermingarboðskorti sem barst í hús á liðinni vertíð. Þar var tekið fram 7.500 króna lágmark á gjöf. Þetta réttlættu foreldrarnir á þann hátt að þetta væri matarveisla og þau þyrftu að borga 3.000 krónur á kjaft í mat. Ég gæti gubbað yfir svona liði! Haldið þá ódýrari veislu og verið ekki svona ógeðsleg. Þetta er dónalegt, frekt, svívirðilegt og lágkúrulegt. Ofurhátt lágmark á gjöf fyrir barnið kemur ekki upp á móti veislukostnaði foreldranna, ekki nema barnið sé sjálft að borga fyrir veisluna en það tel ég ólíklegt. Ég hefði aldrei mætt í þessa veislu.

Ég gef alltaf bók að gjöf og í þeim fermingum og afmælisveislum hef ég gefið ódýrar og góðar bækur. Því góð bók verður ekki metin til fjár.

Ekki heldur trú.

__________________
Pistill þessi er ádeila á samfélagið og kirkjuna, en ekki börn, foreldra þeirra og síst af öllu foreldra mína. Ég fermdist fyrir peninga en ekki trú. Ég fermdist líka vegna þess að allir hinir voru að gera það. Vegna þess að þannig virkaði þetta bara og gerir enn.

föstudagur, apríl 28, 2006

Töfrandi tónleikar

Í gær fór ég á tónleikana Manstu gamla daga? með Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt Ragnheiði Gröndal og Eivøru Pálsdóttur. Þegar ég kom á tónleikana sá ég mér til mikillar gleði að kynnir var Ragnheiður Ásta Pétursdóttir, útvarpsþula til margra ára. Hún er konan sem ásamt Sigvalda Júlíussyni hefur óskað mér og öðrum landsmönnum gleðilegra jóla svo lengi sem ég man. Hún er einnig ekkja Jóna Múla Árnasonar og fjölkunnug um gömlu tímana og tónlistarmennina og því var hrein unun að hlusta á hana kynna lögin og höfundana. Í hvert skipti sem lag endaði beið ég spenntur eftir því að Ragnheiður Ásta hefði upp raust sína. Röddin hennar finnst mér eins og mjúkur koddi eftir erfiðan dag. Eins og heitt súkkulaði á köldum degi.
Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja eða hvernig ég get farið að því að koma öllu frá mér sem mig langar að segja um þessa tónleika. Þeir voru alveg hreint dásamlegir. Ragnheiður Gröndal var sykursæt og flauelsmjúk eins og hennar er von og vísa og Eivør, sem ég hef ekki séð áður á tónleikum, söng af þvílíkum krafti og innlifun að á köflum stóð ég sjálfan mig að því að halda niðri í mér andanum meðan hún söng, svo agndofa var ég og einbeittur. Þó Eivør hafi kallað fram í mér gæsahúðina var Ragnheiður engu síðri og saman voru þeir eins og draumur.

Útsetningarnar voru líka rosalegar. Ef ég gengi með hatt tæki ég ofan fyrir Hrafnkeli Orra Egilssyni fyrir frammistöðu hans við útsetningarnar. Ég vissi ekki á hverju ég ætti von, en vá... þessu hefði mig ekki órað fyrir.

Ef þessir tónleikar verða einhverntímann sýndir í sjónvarpinu mun ég prívat og persónulega rassskella hvern þann sem ekki tekur kvöldið frá til að fylgjast með því.

mánudagur, apríl 24, 2006

Meira um prestamálin

Eins og flestir íbúar Reykjanesbæjar hef ég fylgst með þeim styr sem staðið hefur um skipun í embætti sóknarprests í Keflavíkurkirkju. Skipað hefur verið í embættið og málinu ætti þar með að vera lokið, en stuðningsmenn séra Sigfúsar halda áfram að ausa biturð sinni í allar áttir, nú síðast með ásakandi skrifum um bréf verkefnastjóra upplýsingamála þjóðkirkjunnar, þar sem hún gerir athugasemdir við rangar fullyrðingar ritstjóra. Skrif talsmanna hópsins finnst mér bera vott um sparðatíning og barnaskap og svona skrif væru ekki svara verð, nema ef þá helst til að leiðrétta þá sem mynda sér skoðanir út frá svona áróðursskrifum.
Ég birti hér valda hluta úr bréfi stuðningsmanna og mínar athugasemdir við þá.

„Verkefnisstjórinn gerir mjög lítið úr öllum þeim fjölda, sem skrifaði undir yfirlýsingu um að séra Sigfús yrði sóknarprestur. Síðan leitar hún logandi ljósi að smá hnökrum sem finna má að undirskriftarlistanum...“
Hvergi er sjáanleg minnsta tilraun til að gera lítið úr þeim fjölda sem skrifaði á listann, en það sem hún gerir hins vegar - og réttilega - er að benda á hnökra á listanum. M.a. þá að ekki var óskað eftir kennitölum þeirra sem á listann skrifuðu, auk þess sem heimilisföng undirritaðra voru oft utan sóknarinnar.

„Það er fundið að því að fáeinir sem skrifuðu undir listann hefðu haft heimilisfang í annarri kirkjusókn. En margir þeirra hafa einmitt notið starfa séra Sigfúsar auk þess sem hópurinn tekur ekki að sér að ritskoða listann ef frá er talið að hvert nafn á listanum er aðeins talið einu sinni.“
Þrátt fyrir að stuðningshópurinn leyfi öllum nöfnum að vera á listanum en taki bara út tvítekningar og platnöfn fullyrða Víkurfréttir, bæði í fréttum og ritstjórnarpistli að hér sé um að ræða ákveðið hátt hlutfall sóknarbarna í Keflavíkursókn. Auðvitað gerir maður athugasemd við slík vinnubrögð. Skrif verkefnisstjórans voru aðallega athugasemdir við ritstjórnarpistil Víkurfrétta, ekki árás á vinnubrögð stuðningshópsins, þó margt megi við þau athuga.
Frá mínum bæjardyrum séð eru vinnubrögð Víkurfrétta þegar snýr að þessu tiltekna atriði annað af tvennu: Slæleg blaðamennska eða áróðursstarfsemi.

„Við viljum benda Biskupsstofu á eftirfarandi atriði varðandi undirskriftarlista: [Atriði sem ekki er svarað eru tekin út]
- Óheimilt er að safna kennitölum á netinu.
- Stuðningshópurinn keypti engar auglýsingar til að auglýsa undirskriftalistann. ...“

Ég vil benda stuðningshópnum og öllum þeim er þetta lesa á eftirfarandi atriði:
-Heimilt er að safna kennitölum á netinu, þjóni það málefnalegum tilgangi. Ég bar þetta undir lögfræðing persónuverndar og hann sá ekki annað en að það ætti að vera í lagi.
- Það er rétt að stuðningshópurinn keypti engar auglýsingar, enda sá stærsti fjölmiðill á suðurnesjum þeim fyrir ókeypis auglýsingum, og það í engu smá magni. Ekki var nóg með að birtur var auglýsingaborði á forsíðu Víkurfréttavefsins, heldur birti blaðið 5 fréttir um undirskriftalistann á þeim fjórum sólarhringum sem hann var uppi og í 4 af fréttunum var vísun í listann ásamt yfirlýsingunni sem listanum fylgdi. Auk þess hefur verið sterkur áróðursfnykur af öllum skrifum blaðsins. M.a. birtist á vef Víkurfrétta frétt um það hverjir meðlimir sóknarnefndar væru, að því er virtist skrifuð í þeim eina tilgangi að valda meðlimum nefndarinnar ónæði. Þessi frétt er því miður horfin af vef blaðsins, enda hafa þeir væntanlega fundið fnykinn sjálfir, komnir svona langt yfir strikið.
Hægt er að halda því fram að svona mikil umfjöllun um málið hafi verið réttlætanleg. Ég get samþykkt að mikil umfjöllun um stórvægileg mál er fullkomlega eðlileg, en hægt er að skoða málin frá fleiri en einu sjónarhorni og á fleiri en einn máta. Ekki bara með endurteknum textaafritum af síðu stuðningsmanna og uppfærðum fjölda.

„Á fjórum sólarhringum söfnuðust um 4431 undirskrift til stuðnings séra Sigfúsi eða rúmlega 75% sóknarbarna. Þrátt fyrir að mikill meirihluti sóknarbarna séu einhuga um hvern þau vilja velja, var það ekki nægilegur fjöldi til að hafa áhrif á niðurstöðuna.“
Þetta er hreinlega ekki rétt. Í Keflavíkursókn voru 7980 sóknarbörn 1. desember árið 2004. Þar af voru 5491 þeirra gjaldandi (16 ára og eldri) og það er fjöldinn sem stuðningshópurinn miðar við. Í ljósi þess að engin aldurstakmörk voru á undirskrifalistanum er réttara að miða við heildarfjölda og þá er hlutfallið 55%. Og þar sem þeir sem rituðu nafn sitt (eða annarra - í þökk eða óþökk) þurftu ekki að vera sóknarbörn getum við ekki annað en efast - jafnvel um þessa nýju útreikninga.

Þar höfum við það. Ég hef haft uppi ákveðnar samsæriskenningar um val sóknarprestsins, hvort sem þær eru réttar eða rangar, en það verður bara að koma í ljós. Prestsfrúin neitar því staðfastlega að hún komi til greina í starf sýslumannsins okkar og auðvitað verðum við að trúa manneskju í stöðu eins og hennar. Hún hefur það semsagt gott á Ísafirði og hefur ekki enn sagt starfi sínu lausu. Kannski munu leiðir þeirra skilja með haustinu?

mánudagur, apríl 10, 2006

Séra og séra

Það er talsvert rifist hér í bæ þessa dagana um réttmæti þess að valnefnd Keflavíkurprestakalls mælti ekki með sr. Sigfúsi B. Ingvasyni í embætti sóknarprests eftir 13 ára starf sem aðstoðarsóknarprestur. Bæklingum er dreift í hús og auglýst í fréttamiðlum þar sem fólk er beðið að skrifa undir mótmæli á netinu. Það eru auðvitað nokkrar hliðar á öllum málum. Ég held að stærsti áhrifavaldurinn sé pólitík. Sr. Skúli Sigurður Ólafsson, sem valnefndin mælir með, er sonur herra Ólafs Skúlasonar, fv. biskups íslands. Sr. Skúla vantar sárlega vinnu þar sem hann missir brátt þá stöðu sem hann gegnir nú á Ísafirði í afleysingum fyrir sr. Magnús Erlingsson.
Málið er samt ekki svona einfalt. Þannig vill til að Jón Eysteinsson, sýslumaður í Keflavík, lætur af störfum vegna aldurs í janúar nk. Eins heppilegt og það er, þá er kona sr. Skúla sýslumaður á Ísafirði og með því að flytja þau hjón hingað er búið að leysa bæði presta- og sýslumannsþörfina hér í bæ. Gefur auga leið.