þriðjudagur, janúar 31, 2006

Eru 13-16 ára farsímanotendur spegill þjóðarinnar?

Þessu velti ég fyrir mér þar sem ég sat í bústað um helgina og las frétt um að Ólafur Geir (sem kjörinn var með smsum) hefði verið sviptur fegurðartitlinum sínum meðan ég beið eftir að horfa á undankeppnina fyrir Eurovision (sem er dæmd með smsum). Það verður sífellt vinsælla að leyfa þjóðinni að kjósa, og þá sérstaklega í sjónvarpinu, enda er það sá miðill sem þorri þjóðarinnar límist við á merkisstundum svo sem Idol keppninni, Eurovision og fegurðarsamkeppnum. Þetta er voðalega falleg pæling, en virkar hún? Ég held ekki. Ég sendi allavega ekki inn sms til að lýsa skoðun minni á svona viðburðum. Það gerir kærastan mín ekki heldur. Pabbi gerir það ekki og heldur ekki mamma. Ég veit ekki til þess að vinir mínir geri það og í raun þekki ég engan sem tekur þátt í svona vitleysu. Ég kalla þetta vitleysu því mér finnst það heimskulegt að borga milli 50 og 100 krónur fyrir það eitt að segja skoðun mína. Það væri nær að mér væri greitt fyrir að spara þessu liði dómaralaun.
Það er auðvitað til fullorðið fólk sem tekur þátt í svona vitleysu og lætur hafa af sér pening, og það er líka fólkið sem spjallar á textavarpinu fyrir 20 krónur á línu, kaupir sér hringitóna á hundrað krónur og sendir inn 10 svarsendingar í sama sms leiknum á 150 krónur skeytið í von um að vinna 200 króna jójó.
Að undanskildum svona vitleysingum held ég að eini þjóðfélagshópurinn sem má treysta á að taki þátt í öllu þessu rugli séu gemsabrjáluðu unglingarnir. 13-16 ára krakkar sem eru með króníska standpínu yfir nýja gemsanum og símareikningnum sem mamma og pabbi borga. Þetta er fólkið sem tekur þátt í símakosningum og tekur afstöðu fyrir hönd þjóðarinnar.
Hverjar eru svo sannanirnar fyrir því að þetta sé svona? Birgitta Haukdal. Það skal enginn segja mér að hún hefði farið út í Eurovision fyrir hönd þjóðarinnar ef það hefði ekki verið símakosning. 90% aðdáenda hennar eru smákrakkar það eru einmitt þeir sem taka þátt í svona kosningum.
Annað dæmi er Óli Geir. Kosningin fyrir Herra Ísland var einmitt símakosning og þar hafði Óli Geir það fram yfir hina keppendurna að vera með netsjónvarpsþátt sem aðeins óharðnaðir unglingar og fullvaxnir hálfvitar hafa gaman af. Líkt og með Birgittu Haukdal voru það unglingarnir sem færðu honum sigurinn á silfurfati.

Lillý var rétt í þessu að benda mér á að hún fílaði lagið sem Birgitta söng. Gott og vel, en ég er þess fullviss að Birgitta hefði unnið þó lagið hennar hefði verið kántrílag um mann sem sem fastur í umferðinni í 40 stiga hita með gyllinæð, sígarettu og engan kveikjara. Bara því það var Birgitta.

Ég man eftir Birgittu þegar hún var léleg. Ekki það að mér finnist hún góð núna. En ég sá hana einu sinni syngja með Írafári þegar hún var nýbyrjuð og grey stelpan hélt varla lagi. Þeir leyfðu henni þó af góðmennsku að hanga með sveitinni, eflaust því þá vantaði sætan front og viti menn! Hún varð margfalt vinsælli en þeir allir til samans. Hún gæti byrjað karókíferil og það tæki enginn eftir því að þeir væru horfnir.
Ég væri djöfull fúll og þeir eru það eflaust líka. Ekki fá þeir að vera andlit Smáralindar eða montandi sig á ungmennafélagsplakötum að þeir reyki ekki. Fyrir hverja eina eiginhandaráritun sem þeir eru beðnir um er Birgitta beðin um fimmtíu. Það er ekkert skrítið að þeir hafi stofnað Eðluna, hljómsveit sem er allir í Írafár að Birgittu undanskilinni. Verst bara að þeir meika það aldrei öðruvísi en sem sveitaballacoverband, því þeir eru ekki eins sætir og Birgitta. Þeirra eina von er að prófa að fara úr að ofan eins og Jónsi. Smápíkurnar fíla það og Jónsi veit það.