mánudagur, apríl 24, 2006

Meira um prestamálin

Eins og flestir íbúar Reykjanesbæjar hef ég fylgst með þeim styr sem staðið hefur um skipun í embætti sóknarprests í Keflavíkurkirkju. Skipað hefur verið í embættið og málinu ætti þar með að vera lokið, en stuðningsmenn séra Sigfúsar halda áfram að ausa biturð sinni í allar áttir, nú síðast með ásakandi skrifum um bréf verkefnastjóra upplýsingamála þjóðkirkjunnar, þar sem hún gerir athugasemdir við rangar fullyrðingar ritstjóra. Skrif talsmanna hópsins finnst mér bera vott um sparðatíning og barnaskap og svona skrif væru ekki svara verð, nema ef þá helst til að leiðrétta þá sem mynda sér skoðanir út frá svona áróðursskrifum.
Ég birti hér valda hluta úr bréfi stuðningsmanna og mínar athugasemdir við þá.

„Verkefnisstjórinn gerir mjög lítið úr öllum þeim fjölda, sem skrifaði undir yfirlýsingu um að séra Sigfús yrði sóknarprestur. Síðan leitar hún logandi ljósi að smá hnökrum sem finna má að undirskriftarlistanum...“
Hvergi er sjáanleg minnsta tilraun til að gera lítið úr þeim fjölda sem skrifaði á listann, en það sem hún gerir hins vegar - og réttilega - er að benda á hnökra á listanum. M.a. þá að ekki var óskað eftir kennitölum þeirra sem á listann skrifuðu, auk þess sem heimilisföng undirritaðra voru oft utan sóknarinnar.

„Það er fundið að því að fáeinir sem skrifuðu undir listann hefðu haft heimilisfang í annarri kirkjusókn. En margir þeirra hafa einmitt notið starfa séra Sigfúsar auk þess sem hópurinn tekur ekki að sér að ritskoða listann ef frá er talið að hvert nafn á listanum er aðeins talið einu sinni.“
Þrátt fyrir að stuðningshópurinn leyfi öllum nöfnum að vera á listanum en taki bara út tvítekningar og platnöfn fullyrða Víkurfréttir, bæði í fréttum og ritstjórnarpistli að hér sé um að ræða ákveðið hátt hlutfall sóknarbarna í Keflavíkursókn. Auðvitað gerir maður athugasemd við slík vinnubrögð. Skrif verkefnisstjórans voru aðallega athugasemdir við ritstjórnarpistil Víkurfrétta, ekki árás á vinnubrögð stuðningshópsins, þó margt megi við þau athuga.
Frá mínum bæjardyrum séð eru vinnubrögð Víkurfrétta þegar snýr að þessu tiltekna atriði annað af tvennu: Slæleg blaðamennska eða áróðursstarfsemi.

„Við viljum benda Biskupsstofu á eftirfarandi atriði varðandi undirskriftarlista: [Atriði sem ekki er svarað eru tekin út]
- Óheimilt er að safna kennitölum á netinu.
- Stuðningshópurinn keypti engar auglýsingar til að auglýsa undirskriftalistann. ...“

Ég vil benda stuðningshópnum og öllum þeim er þetta lesa á eftirfarandi atriði:
-Heimilt er að safna kennitölum á netinu, þjóni það málefnalegum tilgangi. Ég bar þetta undir lögfræðing persónuverndar og hann sá ekki annað en að það ætti að vera í lagi.
- Það er rétt að stuðningshópurinn keypti engar auglýsingar, enda sá stærsti fjölmiðill á suðurnesjum þeim fyrir ókeypis auglýsingum, og það í engu smá magni. Ekki var nóg með að birtur var auglýsingaborði á forsíðu Víkurfréttavefsins, heldur birti blaðið 5 fréttir um undirskriftalistann á þeim fjórum sólarhringum sem hann var uppi og í 4 af fréttunum var vísun í listann ásamt yfirlýsingunni sem listanum fylgdi. Auk þess hefur verið sterkur áróðursfnykur af öllum skrifum blaðsins. M.a. birtist á vef Víkurfrétta frétt um það hverjir meðlimir sóknarnefndar væru, að því er virtist skrifuð í þeim eina tilgangi að valda meðlimum nefndarinnar ónæði. Þessi frétt er því miður horfin af vef blaðsins, enda hafa þeir væntanlega fundið fnykinn sjálfir, komnir svona langt yfir strikið.
Hægt er að halda því fram að svona mikil umfjöllun um málið hafi verið réttlætanleg. Ég get samþykkt að mikil umfjöllun um stórvægileg mál er fullkomlega eðlileg, en hægt er að skoða málin frá fleiri en einu sjónarhorni og á fleiri en einn máta. Ekki bara með endurteknum textaafritum af síðu stuðningsmanna og uppfærðum fjölda.

„Á fjórum sólarhringum söfnuðust um 4431 undirskrift til stuðnings séra Sigfúsi eða rúmlega 75% sóknarbarna. Þrátt fyrir að mikill meirihluti sóknarbarna séu einhuga um hvern þau vilja velja, var það ekki nægilegur fjöldi til að hafa áhrif á niðurstöðuna.“
Þetta er hreinlega ekki rétt. Í Keflavíkursókn voru 7980 sóknarbörn 1. desember árið 2004. Þar af voru 5491 þeirra gjaldandi (16 ára og eldri) og það er fjöldinn sem stuðningshópurinn miðar við. Í ljósi þess að engin aldurstakmörk voru á undirskrifalistanum er réttara að miða við heildarfjölda og þá er hlutfallið 55%. Og þar sem þeir sem rituðu nafn sitt (eða annarra - í þökk eða óþökk) þurftu ekki að vera sóknarbörn getum við ekki annað en efast - jafnvel um þessa nýju útreikninga.

Þar höfum við það. Ég hef haft uppi ákveðnar samsæriskenningar um val sóknarprestsins, hvort sem þær eru réttar eða rangar, en það verður bara að koma í ljós. Prestsfrúin neitar því staðfastlega að hún komi til greina í starf sýslumannsins okkar og auðvitað verðum við að trúa manneskju í stöðu eins og hennar. Hún hefur það semsagt gott á Ísafirði og hefur ekki enn sagt starfi sínu lausu. Kannski munu leiðir þeirra skilja með haustinu?

2 Comments:

At 27/4/06 1:41 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

„M.a. birtist á vef Víkurfrétta frétt um það hverjir meðlimir sóknarnefndar væru, að því er virtist skrifuð í þeim eina tilgangi að valda meðlimum nefndarinnar ónæði. Þessi frétt er því miður horfin af vef blaðsins, enda hafa þeir væntanlega fundið fnykinn sjálfir, komnir svona langt yfir strikið.“


Vil leyfa mér að gera athugasemd við pistil þinn. Engu efni hefur verið hent útaf vefnum. Við birtum ekki sérstaka frétt um hverjir væri í sóknarnefnd, heldur hverjir væru í valnefnd.

Hún er á meðfylgjandi slóð.

http://www.vf.is/frett/?path=/resources/Controls/47.ascx&C=ConnectionString&Q=Front1&Groups=0&ID=26272

Hvað er athugavert við það að upplýsa hverjir séu í valnefndinni? Það liggur ljóst fyrir inni á vef Kelflavíkurkirkju. Þessi nefnd er ekki leynisamtök innan kirkjunnar. Þetta eru fulltrúar sóknarbarna, ekki satt?

 
At 27/4/06 5:42 e.h., Blogger Styrmir B. said...

Jæja, ég játa að ég hafði rangt fyrir mér. Ég asnaðist til að skrifa leitarorðið "sóknarnefnd" þegar ég leitaði fréttarinnar. Þess vegna fann ég hana ekki.

Vissulega er rétt að þetta er engin leyniregla en þó þykir mér ástæðulaust að gera það að sérstakri frétt hverjir meðlimir hennar eru, enda starfa þeir sem nefnd en ekki einstaklingar. Eins rætin og umræðan er um þetta mál hér í bæ, veldur þetta aðeins ónæði og baktali. Það hefur margsannast, jafnvel á spjallvef Víkurfrétta, að fólk er yfirleitt ekki sérlega málefnalegt eða þroskað í svona heitum umræðum.

Smekklegra hefði verið að láta nægja að telja meðlimi upp sem viðauka við aðra frétt af málinu, svona rétt til að uppfylla upplýsingaskyldu Víkurfrétta við almenning. Sérfrétt um málið vekur viðbrögð eins og þau sem ég sýndi.

Kannski brást ég of harkalega við - kannski ekki.

 

Skrifa ummæli

<< Home