miðvikudagur, mars 15, 2006

Meira um einnota fótboltabraggann

Árið 1996 setti íþróttahreyfingin í Keflavík fram ósk um framkvæmdaröð. Þar var upphitaður gerfigrasvöllur efstur á lista, síðan 25 metra innisundlaug og að lokum nýr salur við íþróttamiðstöðina, ekki síst til afnota fyrir fimleikafólkið. Síðar kom formleg ósk frá keflavík, Íþrótta- og ungmennafélagi um félagsmiðstöð í tengslum við fyrirhugaða innisundlaug. Í Njarðvík voru uppi óskir um félagsaðstöðu í nýbyggingu íþróttahússins og stækkun vallarhúss auk áframhaldandi uppbyggingu íþróttavalla.
Svona til að gefa hugmyndir um kostnaðinn við slíkar framkvæmdir má nefna að FH kom sér upp gerfigrasvelli fyrir 35 milljónir. Sá var reyndar óupphitaður en upphitunin þyrfti ekki að vera vandamál hér heima ef völlurinn yrði á gamla malarvellinum og hitaður upp með affallsvatni úr sundlauginni sem annars rennur út í sjó. Skv. grein frá árinu 1998 sem ég fann á VF-vefnum og er því miður ekki merkt höfundi var áætlaður byggingarkostnaður (skv. höfundi) vegna byggingar innisundlaugar og félagsaðstöðu 120-130 milljónir og jafnframt áætlað að nýr salur við íþróttamiðstöðina (C-salur) myndi kosta um 40 milljónir. Félagsaðstaða í Njarðvík og viðbótarframkvæmdir við íþróttamannvirki og vallarhús voru áætluð kosta um 50 milljónir.
Samanlagður kostnaður allra ofangreindra framkvæmda er um 250 milljónir króna. Hvergi var minnst á þörfina fyrir fjölnota íþróttahús en samt var árið 1998 farið að huga að byggingu slíks húss meðan allt hitt var látið sitja á hakanum.

Einhverjir muna eflaust eftir öllum látunum sem voru í kringum húsið og samningagerðina en ég ætla að rekja það hér í grófum dráttum:

Í upphafi var send út útboðslýsing vegna byggingar fjölnota íþróttahúss. Tvö tilboð bárust sem hljóðuðu upp á um 470 milljónir króna. Þessum tilboðum var báðum hafnað og tekið til við að skoða frávikstilboð frá Verkafli upp á 370 milljónir. Hver voru frávikin? Jú, allur fjölnota búnaður var tekinn úr húsinu, minna lagt í húsið sjálft og lóðafrágangur í lágmarki. Bænum stóð til boða að kaupa húsið á þessu verði. Flestum þætti heimskulegt að taka svona tilboði ef hugsað er til þeirra fyrirheita sem lagt var upp með, en bærinn gerði það nú samt og bætti um betur. Í stað þess að kaupa húsið (sem nú var eingöngu yfirbyggður fótboltavöllur) á 370 milljónir ákvað meirihluti bæjarstjórnar að leigja það til 35 ára fyrir 945 milljónir (2.250.000 á mánuði) auk verðbóta á tímabilinu og eiga ekkert í húsinu að loknum leigutíma.

Hver var ástæðan, spyr einhver. Hún var sú að skuldastaða bæjarsjóðs var fremur bág á þessum tíma og með því að beita pennanum svona kæmi framkvæmdin ekki beint inn á hana þar sem um leigu væri að ræða. Meirihluta bæjarstjórnar virtist sama um þá augljósu staðreynd að þetta væri bænum dýrara þegar upp er staðið.

Fyrir þessa peninga hefði verið hægt að uppfylla allar óskir íþróttafélaganna - fjórum sinnum. Nú er verið að byggja hina langþráðu innisundlaug og þegar leigubrellunni hefur verið beitt á þá framkvæmd kostar hún engar 120-130 milljónir eins og gert var ráð fyrir hér að ofan, heldur 641 milljón.

Það væri slæmt fyrir blóðþrýstinginn í mér að halda áfram að skrifa en næst þegar ég sest við lyklaborðið ætla ég að vitna í nokkrar af uppáhaldsklausunum mínum í samningnum sem gerður var vegna „fjölnota“ íþróttahússins. Þær eru margar góðar, eins og t.d. þessi:
„6.1 Leigutaki greiðir allan kostnað af rekstri og nauðsynlegu viðhaldi hins leigða, þar með talið allt viðhald íþróttahússins, búnaðar og lóðar, allar tryggingar, fasteigna- og lóðargjöld, hvort sem leigusala eða leigutaka er gert að greiða slík gjöld af opinberum aðilum.“

---

Mér finnst stundum gaman að bera saman í huganum stjórnmálalegar ákvarðanir og ákvarðanir sem maður tekur í daglegu lífi. Í þessu tilfelli dettur mér í hug maður sem fer í raftækjaverslun í þeim tilgangi að kaupa sér heimabíó sem á að nýtast heimilinu við tónlistarhlustun, sjónvarpsáhorf, karókíkvöld og hvaðeina. Hann hafði séð auglýsingu í blaði þar sem slíkt tækniundur var auglýst fyrir litlar 60.000 krónur. Eftir samningaviðræður við sölumann yfirgefur maðurinn verslunina með segulbandstæki sem kostaði 240.000. Ef maðurinn væri vinur minn myndi ég slá hann leiftursnöggt í höfuðið og kalla hann heimskingja í besta falli. En ef hann hefði keypt tækið fyrir mína peninga... Tja, þá ætti hann ekki von á góðu.

1 Comments:

At 1/4/06 8:41 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Heyr Heyr..til að toppa þetta allt þá vantar eitthvað smá uppá völlin til að hans sé löglegur keppnisvöllur fyrir meistaraflokk.

 

Skrifa ummæli

<< Home