miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Tvö alveg óskyld mál...

Hið fyrra er það að ég hef engan tíma til að vorkenna sjálfum mér í veikindunum því ég hef lítið annað gert en að hanga á klósettinu. Ég hefði aldrei haldið að svona mikið rúmaðist í einum maga!

Hitt málið er að meðan ég sat á salerninu í eitt af skiptunum las ég grein í Tíðindunum sem fjallaði um opnun nýrrar Aðstöðu fyrirtækisins Hringrásar í Helguvík síðasta föstudag. Í tilefni af opnuninni sagði Árni Sigfússon, bæjarstjóri, „...að hér væri komið fyrirtæki sem vildi vera til fyrirmyndar í umhverfismálum. Árni sagði einnig að þegar þeir Hringrásarmenn væru búnir að ganga endanlega frá sínu svæði þá yrði þetta fyritæki til fyrirmyndar í alla staði.“ (Tíðindin, 24.11.2004)
Svo gerist það að kvöldi síðasta mánudags að það kviknar í á athafnasvæði endurvinnslustöðvar Hringrásar við Klettagarða 9. Skömmu síðar fara að birtast fréttir um ábyrgðarleysi stjórnenda fyritækisins þegar kemur að eldvörnum. Eldvarnareftirlitið gerði athugasemdir við dekkjahauga á athafnasvæðinu og þeim athugasemdum var ekki sinnt sem skyldi og ofan á það var fyrirtækið með útrunnið starfsleyfi síðan í september.

Eftirfarandi frétt birtist á fréttavef Vísis:

Stöð 2 23. nóvember 13:53

Viðvaranir hundsaðar

Eldvarnareftirlitið hafði gert athugasemdir við mikinn dekkjahaug á athafnasvæði Hringrásar og talið að af honum stafaði eldhætta. Eftirlitið skrifaði harðort bréf í júní og krafðist þess að dekkjahaugurinn yrði fjarlægður. Það kom fram í bréfinu að ef kviknaði í gæti þurft að rýma íbúða- og atvinnuhúsnæði á stóru svæði, eins og raun varð svo á. Bréfinu var svarað í lok september og lofað að grípa til aðgerða innan nokkura vikna. Við það var ekki staðið. Hundruð tonna af hjólbörðum brunnu í nótt en þá átti að kurla niður og urða.

Fyrirtæki með mengandi starfsemi líkt og endurvinnslustöð Hringrásar eru háð starfsleyfi og rann leyfi fyrirtækisins út í september. Unnið var að endurnýjun leyfisins í samráði við Reykjavíkurborg en gerðar höfðu verið ýmsar kröfur um úrbætur.

Velkomnir til starfa, Hringrás. Gaman að fá ykkur!

Veikur heima

Í dag er þriðji dagurinn sem ég er veikur heima. Með þriggja daga samfelldu væli og veikindum hef ég unnið mér inn réttinn til að leigja mér eina vídjóspólu og kaupa mér einn grænan hlunk. Svoleiðis virka veikindin. Hlunkur og spóla þegar maður hefur sannað að maður er í alvörunni veikur.

Kl. 16:16 lá ég á sófanum að bölva heimska og flókna DeathBall leiknum sem Ellert lét mig fara í á netinu og ég bölvaði því að geta ekki haldið augunum opnum og ég bölvaði því að geta varla andað fyrir hori. En ég bölvaði í hljóði því Lillý er að læra fyrir sálfræðipróf.

Ég og Ellert vorum áðan að ræða hvaða þema við eigum að hafa á jólagjöfunum í ár. Í fyrra var þemað „gagnslaust“ og af því tilefni gaf ég honum baðbombur. Þessar risakúlur sem maður setur í baðið hjá sér og þær fylla það af ilmi og steinefnum. Stórfín gjöf ef hann ætti bað. Hann gaf mér tannlím og hreinsiefni fyrir falskar tennur.

Ég er ekki að nenna þessum veikindum. Ég ætla að hanga yfir sjónvarpinu í allt kvöld og vorkenna sjálfum mér.

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Gáfnaljós á Huga

Ég var að lesa grein á Huga þar sem einhver snillingur er að básúna um gæði kommúnisma. Ég hætti endanlega að taka mark á honum þegar hann sagði þetta:

isgurdurgur 7. nóvember 2004 - 19:17:17
Eg hef lesið 2 bækur um kommunisma og veit örugglega meira um hann en allir sem að svara mer...

Rumprider86 7. nóvember 2004 - 20:52:47
Vá hefurðu lesið 2 bækur um kommúnisma, ég hef lesið meira um kommúnisma en þú. Ekki hreykja þér af eigin fáfræði.

isgurdurgur 7. nóvember 2004 - 21:44:26
þettavoru meira en 200 bls bækur og eg las allt i bokunum.


Hahahahaha!! Til hamingju með að hafa lesið heilar tvær bækur um kommúnisma, og það upp á alveg 200 bls. hvor! Ég tek ofan fyrir þér.