laugardagur, júní 26, 2004

Michael Jackson og ég

Ég átti mér átrúnaðargoð eins og aðrir þegar ég var lítill. Ég man enn eftir 45 snúninga Bad plötunni hans Jacksons sem ég hlustaði á daginn inn og daginn út og söng með hástöfum þó ég væri ekki hár í loftinu og ég lýsti ítrekað yfir aðdáun minni á þessum snillingi. Ég hringdi líka stundum í fröken klukku og reif kjaft við hana í von um að slá hana út af laginu og þegar ég var ekki að því hringdi ég í talsamband við útlönd og bað um símann hjá Michael Jackson. Þau þráuðust nú við að láta mig fá símann hjá honum en ég hélt áfram að hringja. Ég sagði mömmu frá þessari ósk minni um að eiga í samræðum við goðið og hún greip til sinna ráða eins og mæðrum einum er lagið. Dag einn spurði hún mig hvort ég vildi tala við Michael Jackson. Sagðist vita símann hjá honum og bauðst til að slá inn númerið. Ég varð vitaskuld óður af gleði og settist við símann. Hún tók upp tólið, valdi númer og sagði: „Halló, er þetta Michael Jackson? Hér er lítill strákur sem vill endilega tala við þig.“ Já, glöggu lesendur, hún sagði það á íslensku. Mér fannst ekkert athugavert við það, enda var ég heillaður af þeirri hugsun að vera í þann mund að tala við goðið. Á hinum enda línunnar var systir mömmu og hún vissi af áhuga mínum á Jackson. Björg, eins og hún heitir, sagði mömmu að rétta mér tólið sem mamma gerði. Í geðshræringu hvíslaði ég „halló“ og Björg byrjaði: „Raksjon treksjon trowsers on ðe blósers. Blensing fáwser monsenblensen...“ og fleira í þeim dúr. Ég skildi ekki orð en mér var alveg sama. Ég var að tala við Michael Jackson! Ég gat engu stunið upp öðru en „já“ og „aha“ inn á milli þarna sem ég sat opinmynntur að upplifa alla mína drauma. Eftir smá stund af þessu spurði mamma hvort ég væri ekki búin að tala nóg, tók tólið, þakkaði „Jackson“ fyrir og kvaddi. Ég sveif á skýji og hafði aldrei dáðst að Jackson eins mikið og akkúrat þarna fyrir að gefa sér tíma til að deila visku sinni með mér.

Þetta grófst svo bara í minningabankanum og ég hugsaði ekki meira um þetta fyrr en dag einn á fullorðinsárum mínum að ég og mamma vorum að rifja upp gamlar sögur af mér. Þá nefndi hún það þegar ég talaði við Björg frænku og hélt að það væri Michael Jackson. Þar sem ég hafði ekki hugsað um þetta í öll þessi ár fyrr en þarna var ég enn fastur í minningunni með þeim barnslegu augum sem ég leit hana þá, og hrópaði næstum upp yfir mig: „Var þetta ekki Michael Jackson!!?“ En þá áttaði ég mig á því hvernig raunveruleikinn virkar og að ég hefði þarna verið illa prettaður. En ég fyrirgaf mömmu, því hún vildi vel eins og allar mæður. Og það virkaði svo sannarlega, því þetta er ein af mínum bestu minningum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home