sunnudagur, september 12, 2004

Bloggins

Ég ætla nú að byrja á að biðjast velvirðingar á því hvað líður langt á milli færslna... Það stendur allt til bóta. Það stendur alltaf allt til bóta.

Lillý var komin upp í rúm um daginn og ég var að horfa á sjónvarpið þegar hún kallar fram: „Á ensku segir maður thirty og dirty. Og á íslensku er það þrítugur og skítugur. Ætli þetta sé tilviljun?“
...og ég hef hreinlega ekki hætt að hugsa um þetta. Alveg stórmerkilegt!

Látum okkur sjá... hvað hefur svo drifið á daga mína undanfarið? Ég er að kenna tónmennt í Holtaskóla núna. Kenni 3.-6. bekk og það er alveg dásamlegt. Bekkirnir eru náttúrlega misgóðir en á heildina er þetta frábært. Svo heyrir maður litlar perlur eins og það þegar einn strákur í 4. bekk gægðist yfir á kennaraborðið hjá mér og sá (á hvolfi) mynd af búlduleitri býflugu. „Þetta er bangsi,“ segir hann við þá sem sátu með honum á borði. „Nei,“ svarar þá einn þeirra. „Þetta er kanína með stór eistu.“

Svo var það einn drengur í 3. bekk sem hætti ekki að tala þó ég væri að sussa á bekkinn. Ég gekk mig þá að borðinu hans og ætlaði að gera það sem ég geri þegar ég lendi í þessum aðstæðum: Draga hann í stólnum hans frá borðinu og vísa honum á annað borð. Ég sá þó ekki að hann sat mjög framarlega á stólnum og þegar ég dró í stólinn húrraði hann af honum og lenti á rassinum á gólfinu. Ég varð að halda kúlinu (í ljósi þess að það er valdabarátta þessar fyrstu vikur) og stóð yfir honum með grimmdarsvip og fingur sem benti í hinn endann á stofunni og sagði: „Sestu þarna.“ Hann var svo hissa og miður sín á svipinn að ég átti bágt með mig en ég hélt þetta þó út þar til bekkurinn var að horfa á spólu. Þá læddist ég til hans og bað hann afsökunar á stólakippnum en ítrekaði þó að hann verði að þaga þegar ég bið um þögn. Held ég hafi komist nokkuð vel frá því.

Ég var að leysa af í Holtaskóla á síðasta ári. Þá leysti ég tónmenntakennarann af í eina viku. (Mér finnst reyndar eins og ég hafi bloggað um þetta áður en ég nenni ekki að gá.) Einum bekknum leyfði ég að horfa á Fantasia 2000 og ég sat aftast meðan þau horfðu.
Tónlist hefur rosalega djúpstæð áhrif á mig. Hún getur fengið mig til að gráta, hlæja, skjálfa, tapa mér úr hrifningu eða sitja gersamlega dolfallinn. Tónlistin í Fantasia 2000 er ekki bara frábærlega valin, heldur ofboðslega vel flutt og myndskreytt, sem spillir ekki fyrir. Við vorum að horfa á atriðið sem gerist í örkinni hans Nóa og undir hljómaði Pomp & Circumstance eftir Elgar. Ég hef aldrei horft á þetta atriði án þess að tárast. Allt frá því ég sá myndina fyrst í bíó og svo í öll þau skipti sem ég hef horft á þetta á spólu hef ég tárast þegar lagið nær hámarki.
Þetta skipti með krökkunum var engin undantekning. Það var engin tilviljun að ég kom mér fyrir aftast í bekknum meðan þau horfðu. En þegar lagið náði hámarki var ein stelpa í bekknum að horfa í kringum sig og varð litið á mig þar sem ég sat með glitrandi augu og sagði stundarhátt: „Ertu að gráta, kennari?“ Og auðvitað leit allur bekkurinn við. Ég gat ekkert boðið sem svar nema:
„Ha? Neinei... ég fékk eitthvað í augað...“