miðvikudagur, maí 10, 2006

Fermingarlágkúrunni lokið

Jæja, þá er fermingartímabilinu loks lokið. Það held ég að minnsta kosti, því ég hef ekki orðið var við neinar fermingar nýlega. Ég er alltaf svolítið feginn þegar þetta er allt afstaðið. Ég er kannski að eldast og fyllast einhverju eilífðarhnussi út í samfélagið, en með hverju árinu finnst mér þetta verða meiri lágkúra. Nú er ég að tala um það hvernig við kaupum lítil börn inn í trúfélög og þá aðallega þjóðkirkjuna.
Hvert sem maður lítur sér maður börnin lofa guð sinn og vitna í Biblíuna til að sannfæra sig, prestinn og alla í kring um að þau hafi sannarlega séð ljósið en séu ekki bara í þessu gjafanna vegna. Sum börnin játa það reyndar og ég verð að gefa þeim plús fyrir það. Hvernig getur maður áfellst barn fyrir að taka svo auðvelda ákvörðun sem fermingin er gegn tugþúsunda eða jafnvel hundruða þúsunda króna greiðslu? Já,
ferming er auðveld ákvörðun. Ég fermdist og ekki er ég annar maður fyrir vikið. Ég tók við mínu mútufé, sagði já við altarið, át mína oblátu og hef aldrei sést í kirkju síðan. Þ.e. ef frá eru talin þessi skipti sem maður verður að mæta, svo sem í giftingar, jarðarfarir og skírnir, en það er bara formsatriði. Þá lít ég á kirkjuna eins og hvern annan veislusal og presturinn er veislustjórinn.
Best að árétta það áður en lengra er haldið að ég er ekki að áfellast fermingarbörnin , heldur samfélagið allt. Þegar ég fermdist var ég barn og lít ekki heiminn sömu augum þá og nú.

Stöldrum aðeins við þessa hugsun. Það er deginum ljósara að fjórtán ára barn hefur allt aðra sýn á veröldina en manneskja sem er til dæmis, tja, átján ára. Átján ára fólk er kannski ekki svo fullorðið, en þó orðið sjálfráða og ætti því að vera treystandi fyrir ákvörðunum sem varða líf þeirra. Nema auðvitað ef þau vilja drekka, en það er nú annað mál. Hvers vegna er fermingaraldurinn ekki hækkaður upp í 18 ár? Svarið er einfalt. Vegna þess að þá myndi fermingum snarfækka, segja einhverjir. Kannski. En erum við minna gráðug átján ára en við erum fjórtán ára? Það hugsa ég ekki. Ef mér væri í dag boðin kvartmilljón (sem sum fermingarbörn fá í samanlögðum gjöfum) fyrir að fermast myndi ég gera það án þess að hugsa mig um. Ég myndi skrá mig aftur í þjóðkirkjuna, þiggja blessun, þiggja peninga og skella mér svo til Arúba með familíuna. Skrá mig svo bara aftur úr þjóðkirkjunni þegar ég kem heim og málið er dautt. Ég skal fermast á hverju ári ef ég fæ alltaf gjafirnar.

Hvers vegna gerum við þetta? Hvers vegna þurfum við að kaupa börnin okkar til að játa trú? Trú sem við búum ekki einu sinni sjálf yfir. Íslendingar eru kristin þjóð að nafninu til en við vitum sem er að kirkjugestir á venjulegum sunnudegi gætu ekki einusinni skipað lið í fótboltaleik ef veðrið væri gott. Vítaspyrnukeppni í besta falli. Við kaupum börnin í þetta vegna þess að það er eina leiðin. Ekki er trúarvakningunni fyrir að fara á heimilunum í landinu, þó auðvitað sé það hjá einvherjum, en það er undantekning frekar en venja. Börnin fermast ekki til að staðfesta trúna sem þau eiga að vera alin upp í ef foreldrarnir halda það loforð sem þeir gefa við skírn. Þau fermast til að fá peninga. Til að tilbiðja guð sinn, Mammon. Mammonstrú er það sem við höldum að börnunum okkar með því að halda áfram þessari fermingarsvívirðu. Við kennum þeim að morgni fullorðinsáranna að það sé allt í lagi að taka ákvörðun, sem skv. kirkjunni er ein sú mikilvægasta sem þú tekur á ævinni, svo lengi sem peningarnir séu nógu miklir. Skv. viðtekinni venju er í lagi að ljúga að prestinum, sjálfum sér og öllum í kring. Að ljúga í kirkjunni upp í opið geðið á Guði, vegna þess að maður fær svo fjandi vel borgað fyrir það.

Börnin fermast ekki vegna þess að þau vilja það, heldur því allir hinir eru að gera það. Ef eitt barn fermist ekki verður það öreigi meðal jafnaldra sinna. Borgaralegar fermingar eru örvæntingarfullar tilraunir trúleysingja og meðvitaðra borgara til að sporna gegn þessum magninkaupum kirkjunnar á börnum í söfnuðinn. Engin trú í spilinu. Bara kynfræðsla, eineltisumræða, popp og vídjógláp og svo fullt af peningum. Þetta á að vera valkostur fyrir sjálfstætt þenkjandi börnin, en er samt eitthvað svo hálfvitalegt. Þrátt fyrir borgaralegar fermingar tekur sama geðveikin við. Meira að segja Ásatrúarfélagið er farið að bjóða upp á einhverskonar innvígslu svo þeirra börn fari nú ekki að játa trú á Jesú fyrir peninga, ef þeim skyldi ekki lítast nógu vel á borgaralegu ferminguna. Við virðumst vera að gefast upp fyrir Mammonsboðskapi samfélagsins og kirkjunnar. Já, kirkjunnar. Ef þeir vildu fá til sín meðlimi á réttum forsendum væru kirkjunnar menn með háværar fordæmingar í garð gjafaflóðsins og myndu einnig hækka fermingaraldurinn í eitthvað gáfulegra en fjórtán ár.

Lágkúran náði hámarki fyrir mér þegar ég heyrði af fermingarboðskorti sem barst í hús á liðinni vertíð. Þar var tekið fram 7.500 króna lágmark á gjöf. Þetta réttlættu foreldrarnir á þann hátt að þetta væri matarveisla og þau þyrftu að borga 3.000 krónur á kjaft í mat. Ég gæti gubbað yfir svona liði! Haldið þá ódýrari veislu og verið ekki svona ógeðsleg. Þetta er dónalegt, frekt, svívirðilegt og lágkúrulegt. Ofurhátt lágmark á gjöf fyrir barnið kemur ekki upp á móti veislukostnaði foreldranna, ekki nema barnið sé sjálft að borga fyrir veisluna en það tel ég ólíklegt. Ég hefði aldrei mætt í þessa veislu.

Ég gef alltaf bók að gjöf og í þeim fermingum og afmælisveislum hef ég gefið ódýrar og góðar bækur. Því góð bók verður ekki metin til fjár.

Ekki heldur trú.

__________________
Pistill þessi er ádeila á samfélagið og kirkjuna, en ekki börn, foreldra þeirra og síst af öllu foreldra mína. Ég fermdist fyrir peninga en ekki trú. Ég fermdist líka vegna þess að allir hinir voru að gera það. Vegna þess að þannig virkaði þetta bara og gerir enn.

4 Comments:

At 10/5/06 8:44 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Er ekki fokið í flest skjól þegar Hr. DrumaTix er farinn að nota knattspyrnu sem viðmið :)

 
At 10/5/06 8:50 f.h., Blogger Styrmir B. said...

Haha, kannski. Ég sat einmitt lengi og velti því fyrir mér hve margir væru í fótboltaliði, svo ég hefði betri hugmynd um þá líkingu sem ég var að nota. Komst reyndar ekki að niðurstöðu en notaði hana samt.

 
At 11/5/06 9:41 e.h., Blogger Nikki Badlove said...

....laumufótboltastrákur....mér datt það ekki fyrr í hug....

 
At 12/5/06 9:27 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

vel mælt, bróðir. Ég hefði hent 100 kalli í umslag og afþakkað boðið en ekki fundist annað en við hæfi að reyna að borga andvirði boðskortsins.

 

Skrifa ummæli

<< Home