mánudagur, desember 29, 2003

Ekki spila Mr. and Mrs.!

Ég spilaði þetta spil um daginn við konuna mína, vinkonu hennar og vin minn, sem er kærasti vinkonunnar. Leit ágætlega út í fyrstu með spurningum um uppáhaldsmat og bíómyndir og blablabla... Svo vorum við spurðir hvað við teldum konurnar okkar vera þungar. Það kostaði miklar vangaveltur að finna „öruggar“ tölur og okkur tókst að komast lifandi frá því. Svo kom sprengjan: Hverju heldur þú að konan þín hefði mest gagn af? - fitusogi - andlitslyftingu - kynlífsleiðbeiningabók Hvaða helvítis fáviti bjó þetta spil til?!? Ég og Stóri (vinurinn) áttuðum okkur á raunverulegri merkingu spurningarinnar: Hvar er versti galli konunnar þinnar? - hún er feit - hún er ljót - hún er léleg í rúminu Það var ekki nokkur leið að svara þessu og koma vel út úr því. Við fórum að svitna og skjálfa undir stingandi augnaráði ástmeyja okkar sem vissu jafnvel og við að nú var eitthvað skelfilegt að fara að gerast. Við sættumst samt sem áður báðir á að velja kynlífsbókina, og útskýrðum valið á þann hátt að það er alltaf hægt að fræðast meira. Við útskýrðum valið í hræðslukasti og enginn var drepinn. En ég sór það með sjálfum mér að þetta spil verður aldrei aftur tekið upp á þessu heimili. ---- Á þessum nótum, þá eru tvær sögur sem koma upp í hugann þegar ég fer að hugsa um vandræðalegar aðstæður með frúnni. Á árdögum sambands okkar vorum við heima í stofu hjá foreldrum hennar að ræða um daginn og veginn. Svo barst talið að skemmtistöðum, viðreyningum og afbrýðisemi. Við fórum að ræða hvernig við tökum á því þegar annað fólk er að reyna við makann. Hún sagði mér að henni væri sama hver reynir við mig, svo lengi sem hún sé ekki sæt. Og ég svaraði með: „Ég vil engar sætar stelpur, ég vil bara þig.“ Við tók nokkurra sekúndna þögn þar sem við vorum bæði að átta okkur á því sem ég var að segja en ég varð fyrri til að fara í: „Nei, nei, nei!! Ég meina sko.... hérna, þú veist.. æi! Sko..“ og svo framvegis þar til ég hafði útskýrt fyrir henni að stundum er munnurinn á mér hlaupinn af stað áður en heilinn er kominn í skóna. En for the record, þá er konan mín fallegust í heiminum. :-) Svo gerðist það einusinni að við vorum í einhverju koddahjali heima hjá okkur og vorum að tala um ást á kvikmyndastjörnum. Hún er yfir sig hrifin af Sean Connery og ég setti upp tilbúnar aðstæður. Hún sæti á bar og til hennar kæmi Sean Connery. Hann gæfi sig á tal við hana og upp úr krafsinu kæmi að hann væri dauðvona og væri tilbúinn að arfleiða hana að öllu sem hann ætti ef hún vildi eyða með honum síðustu mánuðum lífs hans. Hún sagðist strax aldrei myndu gera slíkt, enda gætu allir peningar heimsins ekki fengið hana til að vera með öðrum en mér. Þá var það afgreitt og við lágum og horfðum á loftið. Upp úr þögninni segir hún svo: „En ef þetta værir þú og Jennifer Love-Hewitt?“ Ég hikaði í 2 sekúndur og á þeim tíma hafði ég undirritað dauðadóminn minn, tekið mér skóflu í hönd og grafið mig niður í dýpsta skítahaug heims. Eftir hikið var sama hvað ég sagði, ég tók mér samt þessar tvær sekúndur til að velta málinu fyrir mér, þó ég hafi nú reyndar sagt að ég hafi notað þær til að raða saman orðunum í huganum svo ég gæti neitað þessu á eins staðfastan og hægt væri. En skaðinn var skeður... Ég hef ekki horft á mynd með henni síðan. En það er þó lán að Lillý mín er eins yndisleg og stúlkur verða, þannig að hún verður mér aldrei alvarlega reið. Það er líklega það sem hefur orðið mér til lífs, því ég er snillingur í að segja og gera heimskulega hluti.

1 Comments:

At 2/2/09 6:23 e.h., Blogger Unknown said...

Hæhæ Er búin að vera að leita að Mr and Mrs spilinu út um allt.. Ertu til í að selja mér það??

Endilega hafðu samband á tinnabjarna@gmail.com

 

Skrifa ummæli

<< Home