Með taugarnar þandar...
...óregluleg skemmtun fyrir alla aldurshópa
miðvikudagur, mars 15, 2006
Meira um einnota fótboltabraggann
Árið 1996 setti íþróttahreyfingin í Keflavík fram ósk um framkvæmdaröð. Þar var upphitaður gerfigrasvöllur efstur á lista, síðan 25 metra innisundlaug og að lokum nýr salur við íþróttamiðstöðina, ekki síst til afnota fyrir fimleikafólkið. Síðar kom formleg ósk frá keflavík, Íþrótta- og ungmennafélagi um félagsmiðstöð í tengslum við fyrirhugaða innisundlaug. Í Njarðvík voru uppi óskir um félagsaðstöðu í nýbyggingu íþróttahússins og stækkun vallarhúss auk áframhaldandi uppbyggingu íþróttavalla.Svona til að gefa hugmyndir um kostnaðinn við slíkar framkvæmdir má nefna að FH kom sér upp gerfigrasvelli fyrir 35 milljónir. Sá var reyndar óupphitaður en upphitunin þyrfti ekki að vera vandamál hér heima ef völlurinn yrði á gamla malarvellinum og hitaður upp með affallsvatni úr sundlauginni sem annars rennur út í sjó. Skv. grein frá árinu 1998 sem ég fann á VF-vefnum og er því miður ekki merkt höfundi var áætlaður byggingarkostnaður (skv. höfundi) vegna byggingar innisundlaugar og félagsaðstöðu 120-130 milljónir og jafnframt áætlað að nýr salur við íþróttamiðstöðina (C-salur) myndi kosta um 40 milljónir. Félagsaðstaða í Njarðvík og viðbótarframkvæmdir við íþróttamannvirki og vallarhús voru áætluð kosta um 50 milljónir.
Samanlagður kostnaður allra ofangreindra framkvæmda er um 250 milljónir króna. Hvergi var minnst á þörfina fyrir fjölnota íþróttahús en samt var árið 1998 farið að huga að byggingu slíks húss meðan allt hitt var látið sitja á hakanum.
Einhverjir muna eflaust eftir öllum látunum sem voru í kringum húsið og samningagerðina en ég ætla að rekja það hér í grófum dráttum:
Í upphafi var send út útboðslýsing vegna byggingar fjölnota íþróttahúss. Tvö tilboð bárust sem hljóðuðu upp á um 470 milljónir króna. Þessum tilboðum var báðum hafnað og tekið til við að skoða frávikstilboð frá Verkafli upp á 370 milljónir. Hver voru frávikin? Jú, allur fjölnota búnaður var tekinn úr húsinu, minna lagt í húsið sjálft og lóðafrágangur í lágmarki. Bænum stóð til boða að kaupa húsið á þessu verði. Flestum þætti heimskulegt að taka svona tilboði ef hugsað er til þeirra fyrirheita sem lagt var upp með, en bærinn gerði það nú samt og bætti um betur. Í stað þess að kaupa húsið (sem nú var eingöngu yfirbyggður fótboltavöllur) á 370 milljónir ákvað meirihluti bæjarstjórnar að leigja það til 35 ára fyrir 945 milljónir (2.250.000 á mánuði) auk verðbóta á tímabilinu og eiga ekkert í húsinu að loknum leigutíma.
Hver var ástæðan, spyr einhver. Hún var sú að skuldastaða bæjarsjóðs var fremur bág á þessum tíma og með því að beita pennanum svona kæmi framkvæmdin ekki beint inn á hana þar sem um leigu væri að ræða. Meirihluta bæjarstjórnar virtist sama um þá augljósu staðreynd að þetta væri bænum dýrara þegar upp er staðið.
Fyrir þessa peninga hefði verið hægt að uppfylla allar óskir íþróttafélaganna - fjórum sinnum. Nú er verið að byggja hina langþráðu innisundlaug og þegar leigubrellunni hefur verið beitt á þá framkvæmd kostar hún engar 120-130 milljónir eins og gert var ráð fyrir hér að ofan, heldur 641 milljón.
Það væri slæmt fyrir blóðþrýstinginn í mér að halda áfram að skrifa en næst þegar ég sest við lyklaborðið ætla ég að vitna í nokkrar af uppáhaldsklausunum mínum í samningnum sem gerður var vegna „fjölnota“ íþróttahússins. Þær eru margar góðar, eins og t.d. þessi:
„6.1 Leigutaki greiðir allan kostnað af rekstri og nauðsynlegu viðhaldi hins leigða, þar með talið allt viðhald íþróttahússins, búnaðar og lóðar, allar tryggingar, fasteigna- og lóðargjöld, hvort sem leigusala eða leigutaka er gert að greiða slík gjöld af opinberum aðilum.“
---
Mér finnst stundum gaman að bera saman í huganum stjórnmálalegar ákvarðanir og ákvarðanir sem maður tekur í daglegu lífi. Í þessu tilfelli dettur mér í hug maður sem fer í raftækjaverslun í þeim tilgangi að kaupa sér heimabíó sem á að nýtast heimilinu við tónlistarhlustun, sjónvarpsáhorf, karókíkvöld og hvaðeina. Hann hafði séð auglýsingu í blaði þar sem slíkt tækniundur var auglýst fyrir litlar 60.000 krónur. Eftir samningaviðræður við sölumann yfirgefur maðurinn verslunina með segulbandstæki sem kostaði 240.000. Ef maðurinn væri vinur minn myndi ég slá hann leiftursnöggt í höfuðið og kalla hann heimskingja í besta falli. En ef hann hefði keypt tækið fyrir mína peninga... Tja, þá ætti hann ekki von á góðu.
laugardagur, mars 11, 2006
Orð eru til alls fyrst
Ég var í sjoppu áðan og rakst þar á nýja vöru. Egils Orka er komin í nýjar umbúðir: 250 ml álflösku. Útlitið er nokkuð töff og ferskt þó drykkurinn sé líklega sá sami. Gömlu 500 ml flöskurnar kostuðu 180 krónur í þessari sjoppu en sá nýji kostar litlar 170 krónur. Já, vei. Magnið er minnkað um helming en verðið um skitnar 10 krónur.
Ég sé alveg fyrir mér hugmyndateymisfundinn þar sem þetta kom upp:
„Hei, ég er með geggjaða hugmynd! Hvað segið þið um að minnka magnið í Orku-flöskunum en lækka verðið varla neitt?“
„Nei, nú bullaru. Hvernig dettur þér í hug að það sé hægt? Fólk myndi gera athugasemdir.“
„Þess vegna markaðssetjum við drykkinn í nýjum og meira töff umbúðum. Fólk kokgleypir það alveg.“
„Já, auðvitað! Snillingur ertu!“
„Nei, ég er ekki snillingur. Það er fólkið sem er fífl.“
Og það er nú bara þannig. Við erum bölvuð fífl og virðumst njóta þess gríðarlega að vera þráfaldlega svívirt á allan máta. Við erum á móti hátæknisjúkrahúsi en það er samt byggt. Við erum hundfúl yfir bensínverði en gerum ekkert í því. Þingmenn hækka launin sín og sukka með peninga þjóðarinnar á allan hugsanlegan máta og við grenjum yfir því í viku í mesta lagi og förum svo að hugsa um næsta töff hlut til að kaupa og monta okkur yfir við vini okkar. Okkar „farsælasti stjórnmálamaður“, Davíð Oddsson makaði krókinn svo um munaði rétt áður en hann hætti og tók með sér fullt af fríðindum. Við vældum yfir því í smá stund og nú virðist öllum vera sama.
Almannatryggingakerfið okkar er hreinlega ógeðslegt á allan máta, bæði flókið, spillt og ósanngjarnt og við gerum ekkert í því. Viðbjóðslegast finnst mér hvernig við látum það viðgangast að níðst sé á eldri borgurum landsins. Við VITUM að aðeins helmingur þess penings sem við greiðum á hverju ári í Framkvæmdasjóð aldraðra er notaður í framkvæmdir fyrir aldraða eins og ætlunin var upphaflega. Hinn helmingurinn fer í rekstur elliheimila sem ætti með réttu að vera tekinn af allt öðrum peningabrunni. Við VITUM að úti um allt land lifir gamalt fólk við skammarlegar aðstæður þar sem það er neytt til að deila agnarsmáum herbergjum með ókunnugum og jafnvel eru hjón aðskilin vegna mismunandi heilsufars. Þetta gera ráðamenn þjóðarinnar við gamla fólkið sem ætti að fá að eyða síðustu árum ævinnar við kjöraðstæður og njóta allrar virðingar af okkar hálfu.
Við vitum svo margt og gerum samt ekki rassgat.
Ég verð fokreiður þegar ég skrifa um þetta. Aðallega vegna þess að svona ástandi mætti breyta ef við værum ekki svona bölvaðir aumingjar. Ef við værum ekki sífellt að kjósa yfir okkur sömu fíflin sem við leyfum svo að valta yfir okkur eins og þeim sýnist. Hvar er baráttuviljinn og réttlætiskenndin? Hvar er gúttóslagurinn þegar hans er þarfnast?
En svo er ég engu betri en allir hinir. Rövla bara og geri ekkert í málunum.
Byltingin byrjar með vakningu. Við þurfum að vakna til vitundar um það sem er að gerast í kringum okkur ef eitthvað á að breytast. Orð eru til alls fyrst og þess vegna ætla ég hér með að boða stofnun umræðufélags í Reykjanesbæ. Þar gætum við hist reglulega og rætt daginn, veginn og þjóðfélagsmálin yfir kaffibolla á góðum stað. Who's with me?
föstudagur, mars 10, 2006
Alltaf í boltanum!
Það er orðið svolítið síðan ég bloggaði síðast. Merkilegt hvað maður getur afvegaleiðst á netinu. Ég er margoft búinn að setjast niður við tölvuna til að blogga en enda svo á því að skoða bara einhverja bölvaða vitleysu og hangi svo í leik til að fullkomna tilgangsleysið.
Það eru nokkrir hlutir sem mig langar að skrifa um. Byrjum á elsta málinu; nokkru sem mig hefur langað að skrifa um lengi en hef einhverra hluta vegna ekki haft mig í. Fyrir nokkrum árum síðan – ég man ekki hve mörgum – var heit umræða í bæjarfélaginu vegna fyrirhugaðrar byggingar fjölnota íþróttahúss í Reykjanesbæs. Hitinn í umræðunni var til kominn vegna nokkurra hluta, svo sem þeirrar staðreyndar að bærinn ætlaði að leigja það í langan tíma fyrir morð fjár án þess að eignast nokkurn tímann svo mikið sem fermeter í húsinu. Auk þess voru menn ekki á eitt sáttir um fjölnotagildi hússins. Það var mikið rifist um málið og meðal annars stóð ég fyrir fundi í fjölbrautaskólanum þar sem bæjarstjórinn mætti fulltrúa minnihlutans í umræðum um málið og þar valtaði minnihlutafulltrúinn yfir bæjarstjórann. Hann benti á endalausar brotalamir í málinu og þá sérstaklega hvernig bærinn hefur smám saman slakað á öllum tæknilegum kröfum og pælingum varðandi húsið sem áttu að gera það fjölnota, svo sem útskiptanlegt gólf og fleira sniðugt. Bæjarstjórnin fékk sínu fram undir því falska yfirskini að íþróttahúsið yrði sannarlega fjölnota og myndi nýtast öllum íþróttagreinum.
Húsið var byggt og stendur sem fastast. Því verður ekki breytt úr þessu. Eins og minnihlutinn og aðrir glöggir menn og konur höfðu bent á var húsið aldeilis ekki fjölnota. Í því er eingöngu gerfigras sem nýtist engum nema fótboltaiðkendum. Ef húsið ætti bara að þjóna sem fótboltahöll mætti réttlæta þetta þrátt fyrir fáránlegar fjárhagslegar skuldbindingar ef ekki væri fyrir ýmsa vankanta. Fyrir það fyrsta er völlurinn nokkrum metrum of stuttur til að nýtast sem keppnisvöllur og því er bara hægt að æfa þarna. Auk þess er engin aðstaða fyrir áhorfendur ef frá eru taldir bekkir meðfram línunni sem eru í raun til skammar í jafn dýru húsi. Auk þess hef ég heyrt að búningaaðstaðan sé afar slöpp, án þess að ég selji það dýrara en ég keypti það.
Bærinn reynir í örvæntingu að sýna fram á fjölnotagildi hússins og treður þangað inn bílasýningum, íþróttadögum grunnskólanna, 17. júní skemmtunum og sjómannadögum. Sjómenn úr Reykjanesbæ sniðganga nú sjómannadagsskemmtunina sem auðvitað á að vera haldin niðri á höfn.
Þegar ég var ungur át ég pylsu í skrúðgarðinum á 17. júní og skemmti mér kvöldið áður á útitónleikum niðri í bæ. Ég fylgdist með vitleysingunum í koddaslag yfir sjónum á sjómannadeginum og hlustaði á ræðuhöldin með súkkulaði í munnvikunum og pírð augu á móti sólinni. Þetta hefur bæjaryfirvöldum tekið að eyðileggja á stuttum tíma. Auk þess eru öll hátíðarhöld þarna inni gjörsamlega handónýt vegna bergmálsins þarna inni sem gerir alla tónlist að illmeltanlegum graut.
Eitt finnst mér þó allra verst. Helstu rök bjánanna í bæjarstjórn voru þau að húsið væri fjölnota og myndi þá nýtast öllum en eins og allir sáu kom annað á daginn og þetta varð að einnota fótboltabragga. Meirihluta bæjarstjórnarinnar fannst greinilega ekki nóg að hafa logið svona illa að bæjarbúum og vildu segja: „Djöfull tókum við ykkur!“ svo eftir væri tekið. Það gerðu þeir með því að skella þessu fótboltaferlíki yfir anddyri braggans:

Ég skrifa meira síðar. Þreyttur í puttunum.

