laugardagur, mars 11, 2006

Orð eru til alls fyrst

Ég var í sjoppu áðan og rakst þar á nýja vöru. Egils Orka er komin í nýjar umbúðir: 250 ml álflösku. Útlitið er nokkuð töff og ferskt þó drykkurinn sé líklega sá sami. Gömlu 500 ml flöskurnar kostuðu 180 krónur í þessari sjoppu en sá nýji kostar litlar 170 krónur. Já, vei. Magnið er minnkað um helming en verðið um skitnar 10 krónur.
Ég sé alveg fyrir mér hugmyndateymisfundinn þar sem þetta kom upp:
„Hei, ég er með geggjaða hugmynd! Hvað segið þið um að minnka magnið í Orku-flöskunum en lækka verðið varla neitt?“
„Nei, nú bullaru. Hvernig dettur þér í hug að það sé hægt? Fólk myndi gera athugasemdir.“
„Þess vegna markaðssetjum við drykkinn í nýjum og meira töff umbúðum. Fólk kokgleypir það alveg.“
„Já, auðvitað! Snillingur ertu!“
„Nei, ég er ekki snillingur. Það er fólkið sem er fífl.“

Og það er nú bara þannig. Við erum bölvuð fífl og virðumst njóta þess gríðarlega að vera þráfaldlega svívirt á allan máta. Við erum á móti hátæknisjúkrahúsi en það er samt byggt. Við erum hundfúl yfir bensínverði en gerum ekkert í því. Þingmenn hækka launin sín og sukka með peninga þjóðarinnar á allan hugsanlegan máta og við grenjum yfir því í viku í mesta lagi og förum svo að hugsa um næsta töff hlut til að kaupa og monta okkur yfir við vini okkar. Okkar „farsælasti stjórnmálamaður“, Davíð Oddsson makaði krókinn svo um munaði rétt áður en hann hætti og tók með sér fullt af fríðindum. Við vældum yfir því í smá stund og nú virðist öllum vera sama.
Almannatryggingakerfið okkar er hreinlega ógeðslegt á allan máta, bæði flókið, spillt og ósanngjarnt og við gerum ekkert í því. Viðbjóðslegast finnst mér hvernig við látum það viðgangast að níðst sé á eldri borgurum landsins. Við VITUM að aðeins helmingur þess penings sem við greiðum á hverju ári í Framkvæmdasjóð aldraðra er notaður í framkvæmdir fyrir aldraða eins og ætlunin var upphaflega. Hinn helmingurinn fer í rekstur elliheimila sem ætti með réttu að vera tekinn af allt öðrum peningabrunni. Við VITUM að úti um allt land lifir gamalt fólk við skammarlegar aðstæður þar sem það er neytt til að deila agnarsmáum herbergjum með ókunnugum og jafnvel eru hjón aðskilin vegna mismunandi heilsufars. Þetta gera ráðamenn þjóðarinnar við gamla fólkið sem ætti að fá að eyða síðustu árum ævinnar við kjöraðstæður og njóta allrar virðingar af okkar hálfu.

Við vitum svo margt og gerum samt ekki rassgat.

Ég verð fokreiður þegar ég skrifa um þetta. Aðallega vegna þess að svona ástandi mætti breyta ef við værum ekki svona bölvaðir aumingjar. Ef við værum ekki sífellt að kjósa yfir okkur sömu fíflin sem við leyfum svo að valta yfir okkur eins og þeim sýnist. Hvar er baráttuviljinn og réttlætiskenndin? Hvar er gúttóslagurinn þegar hans er þarfnast?
En svo er ég engu betri en allir hinir. Rövla bara og geri ekkert í málunum.

Byltingin byrjar með vakningu. Við þurfum að vakna til vitundar um það sem er að gerast í kringum okkur ef eitthvað á að breytast. Orð eru til alls fyrst og þess vegna ætla ég hér með að boða stofnun umræðufélags í Reykjanesbæ. Þar gætum við hist reglulega og rætt daginn, veginn og þjóðfélagsmálin yfir kaffibolla á góðum stað. Who's with me?

2 Comments:

At 11/3/06 8:39 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Pant vera með!!!!

 
At 13/3/06 1:51 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

hey!! im soooo there!!! fuck the system hægri vinstri!!!

 

Skrifa ummæli

<< Home