föstudagur, mars 10, 2006

Alltaf í boltanum!

Það er orðið svolítið síðan ég bloggaði síðast. Merkilegt hvað maður getur afvegaleiðst á netinu. Ég er margoft búinn að setjast niður við tölvuna til að blogga en enda svo á því að skoða bara einhverja bölvaða vitleysu og hangi svo í leik til að fullkomna tilgangsleysið.

Það eru nokkrir hlutir sem mig langar að skrifa um. Byrjum á elsta málinu; nokkru sem mig hefur langað að skrifa um lengi en hef einhverra hluta vegna ekki haft mig í. Fyrir nokkrum árum síðan – ég man ekki hve mörgum – var heit umræða í bæjarfélaginu vegna fyrirhugaðrar byggingar fjölnota íþróttahúss í Reykjanesbæs. Hitinn í umræðunni var til kominn vegna nokkurra hluta, svo sem þeirrar staðreyndar að bærinn ætlaði að leigja það í langan tíma fyrir morð fjár án þess að eignast nokkurn tímann svo mikið sem fermeter í húsinu. Auk þess voru menn ekki á eitt sáttir um fjölnotagildi hússins. Það var mikið rifist um málið og meðal annars stóð ég fyrir fundi í fjölbrautaskólanum þar sem bæjarstjórinn mætti fulltrúa minnihlutans í umræðum um málið og þar valtaði minnihlutafulltrúinn yfir bæjarstjórann. Hann benti á endalausar brotalamir í málinu og þá sérstaklega hvernig bærinn hefur smám saman slakað á öllum tæknilegum kröfum og pælingum varðandi húsið sem áttu að gera það fjölnota, svo sem útskiptanlegt gólf og fleira sniðugt. Bæjarstjórnin fékk sínu fram undir því falska yfirskini að íþróttahúsið yrði sannarlega fjölnota og myndi nýtast öllum íþróttagreinum.
Húsið var byggt og stendur sem fastast. Því verður ekki breytt úr þessu. Eins og minnihlutinn og aðrir glöggir menn og konur höfðu bent á var húsið aldeilis ekki fjölnota. Í því er eingöngu gerfigras sem nýtist engum nema fótboltaiðkendum. Ef húsið ætti bara að þjóna sem fótboltahöll mætti réttlæta þetta þrátt fyrir fáránlegar fjárhagslegar skuldbindingar ef ekki væri fyrir ýmsa vankanta. Fyrir það fyrsta er völlurinn nokkrum metrum of stuttur til að nýtast sem keppnisvöllur og því er bara hægt að æfa þarna. Auk þess er engin aðstaða fyrir áhorfendur ef frá eru taldir bekkir meðfram línunni sem eru í raun til skammar í jafn dýru húsi. Auk þess hef ég heyrt að búningaaðstaðan sé afar slöpp, án þess að ég selji það dýrara en ég keypti það.

Bærinn reynir í örvæntingu að sýna fram á fjölnotagildi hússins og treður þangað inn bílasýningum, íþróttadögum grunnskólanna, 17. júní skemmtunum og sjómannadögum. Sjómenn úr Reykjanesbæ sniðganga nú sjómannadagsskemmtunina sem auðvitað á að vera haldin niðri á höfn.
Þegar ég var ungur át ég pylsu í skrúðgarðinum á 17. júní og skemmti mér kvöldið áður á útitónleikum niðri í bæ. Ég fylgdist með vitleysingunum í koddaslag yfir sjónum á sjómannadeginum og hlustaði á ræðuhöldin með súkkulaði í munnvikunum og pírð augu á móti sólinni. Þetta hefur bæjaryfirvöldum tekið að eyðileggja á stuttum tíma. Auk þess eru öll hátíðarhöld þarna inni gjörsamlega handónýt vegna bergmálsins þarna inni sem gerir alla tónlist að illmeltanlegum graut.

Eitt finnst mér þó allra verst. Helstu rök bjánanna í bæjarstjórn voru þau að húsið væri fjölnota og myndi þá nýtast öllum en eins og allir sáu kom annað á daginn og þetta varð að einnota fótboltabragga. Meirihluta bæjarstjórnarinnar fannst greinilega ekki nóg að hafa logið svona illa að bæjarbúum og vildu segja: „Djöfull tókum við ykkur!“ svo eftir væri tekið. Það gerðu þeir með því að skella þessu fótboltaferlíki yfir anddyri braggans:


Ég skrifa meira síðar. Þreyttur í puttunum.

1 Comments:

At 10/3/06 10:55 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Eins og skrifað frá mínu eigin hjarta. Ég get ekki keyrt framhjá þessu húsi án þess að verða pirruð.

 

Skrifa ummæli

<< Home