Bachelorránið ógurlega

Ég lét mig hafa það að horfa á þetta og var stundum ekki viss hvort ég hefði jafnvel velt mér yfir fjarstýringuna og óvart sett á einhverja Kárahnjúkamynd frá Ómari Ragnarssyni, slíkar voru landslagsmyndirnar og endalausar loftmyndir. Reyndar er það nú illa gert af mér að bera þetta saman við myndirnar hans Ómars því hann gæti ekki tekið svona lélegar loftmyndir þó hann héngi á væng flugvélarinnar með annari hendi og héldi upp um sig buxunum með hinni.
Ok, ok, ég hef ekki bloggað af hjartans lyst lengi og það er kannski ástæðan fyrir hvössu orðavali mínu í garð þáttarins en það breytir þó ekki þeirri staðreynd að hann er lélegur. En það var annað sem olli mér hvað mestri furðu. Og það var þegar slepjulegi kynnirinn sagði að í næstu þáttum yrðu þrír til viðbótar af lokapiparsveinunum fjórum kynntir til sögunnar og í lok fjórða þáttarins gæfist áhorfendum tækifæri til að kjósa álitlegasta piparsveininn með símakosningu.
Er það svo undarlegt? Í sjálfu sér ekki. Íslendingar eru sms-óðir. Við tökum þátt í öllu sem hægt er: Idol kosningu, sms leikjum í beinni, sms-stefnumótaþjónustu, sms-spjalli á textavarpinu og svo sendum við hvert öðru þúsundir sms-a á hverjum einasta degi. En það er ekki nóg með það heldur Íslendingar eru líka sms-heimskir. Það þarf ekki annað en að bjóða fólki að senda sms eitthvert fyrir offjár og þá rjúka allir til. Fólk pantar sér skjátákn og hringitóna fyrir hundruðir króna, svarar já og nei spurningum í Íslandi í dag og sendir inn svör í utandagskrárskjámyndina hjá RÚV til að svara fábjánaspurningum eins og „djammaðiru um helgina?“. Voðalegir hálfvitar getum við verið. Þetta hafa þeir á Skjá 1 uppgötvað og virðast ætla að nýta sér.
Ég tók sérstaklega eftir orðavali kynnisins. Hann sagði ekki að við gætum valið piparsveininn með símakosningu, heldur að við gætum lýst áliti okkar á því hver okkur þætti álitlegastur. Ef þeir hefðu sagt hitt væru þeir að ljúga. Ég er með annað augað á Bachelorframleiðslunni og ég þeir eru langt komnir með tökur. Bachelorinn er búinn að vera að rúnta með gellur á Porche 911 og Porche jeppa, deita þær, kyssa þær og sparka þeim svo heim á leið.
Semsagt: Það er löngu búið að velja hann. Með þessari sms-kosningu sinni held ég að þeir séu að gera annað af tvennu. Segja bara hálfan sannleikann og vona að sem flestir bíti á agnið og telji sig vera ógurlega virka í raunveruleikavæðingunni. Eða að þeim sé alveg sama hvort við vitum að við höfum engin áhrif og að þeir treysti bara á sms-heimskuna í okkur. Hvað heldur þú?
1 Comments:
SMS cost money, we send SMS, they get money... yes yes
Skrifa ummæli
<< Home