miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Veikur heima

Í dag er þriðji dagurinn sem ég er veikur heima. Með þriggja daga samfelldu væli og veikindum hef ég unnið mér inn réttinn til að leigja mér eina vídjóspólu og kaupa mér einn grænan hlunk. Svoleiðis virka veikindin. Hlunkur og spóla þegar maður hefur sannað að maður er í alvörunni veikur.

Kl. 16:16 lá ég á sófanum að bölva heimska og flókna DeathBall leiknum sem Ellert lét mig fara í á netinu og ég bölvaði því að geta ekki haldið augunum opnum og ég bölvaði því að geta varla andað fyrir hori. En ég bölvaði í hljóði því Lillý er að læra fyrir sálfræðipróf.

Ég og Ellert vorum áðan að ræða hvaða þema við eigum að hafa á jólagjöfunum í ár. Í fyrra var þemað „gagnslaust“ og af því tilefni gaf ég honum baðbombur. Þessar risakúlur sem maður setur í baðið hjá sér og þær fylla það af ilmi og steinefnum. Stórfín gjöf ef hann ætti bað. Hann gaf mér tannlím og hreinsiefni fyrir falskar tennur.

Ég er ekki að nenna þessum veikindum. Ég ætla að hanga yfir sjónvarpinu í allt kvöld og vorkenna sjálfum mér.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home