fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Freyja og tónlistin

Þegar Freyja fæddist var ég hamingjusamasti maður á jarðríki. Auk allra þeirra tilfinninga sem fljúga í gegnum höfuð nýbakaðra feðra var ég himinlifandi þegar ég sá hvílíkar hendur hún hafði. Svo langa og fallega fingur sem hreinlega kröfðust þess að vera nýttir í píanóleik. Sjálfur spila ég á píanó og óska þess innilega að Freyja mín geti fundið sig í tónlist, þó ekki væri nema að áhugamáli eins og því er farið með mig. Ég hugsaði sem svo að um leið og hún gæti setið nokkuð áfallalaust myndi ég planta henni fyrir framan píanóið og sjá hvað gerðist. Ég spilaði stundum fyrir hana á gítar og hún varð jafnan dolfallin. Einnig gerðum við Lillý svolítið af því (og gerum enn) að syngja fyrir hana og spila á píanóið því það líkar henni vel. Í desember á síðasta ári lét ég verða af því að leyfa henni að prófa píanóið. Þá var var hún hálfs árs gömul. Ég setti hana á kné mér fyrir framan píanóið og það stóð ekki á viðbrögðunum. Hún sló á nóturnar og þegar hún heyrði hljóðin sem komu varð hún arfavitlaus af gleði. Hún lamdi og lamdi, hjartslátturinn rauk upp og hún skríkti og hló. Síðan þá hef ég eða Lillý reglulega sest með Freyju við píanóið og leyft henni að spreyta sig. Alltaf skríkir elskan mín og myndar með þessu vonandi góð bönd við píanóið.
Stundum fær hún að prófa önnur hljóðfæri á heimilinu. Hvað svo sem það er, þá finnst henni það frábært. Það eina sem hún ekki prófar er saxofónninn, enda getur hún ekki framkallað hljóð úr honum svo ég spila bara fyrir hana og þá brýst brosið út. Brosið sem reyndar er alltaf á þessu fallega andliti, en það verður bara breiðara.


2 Comments:

At 9/2/06 9:06 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

ohhh þið eruð sætust :*

 
At 10/2/06 10:15 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

úff þið eruð svo yndisleg !! Bestu foreldrar í heimi....

 

Skrifa ummæli

<< Home