sunnudagur, febrúar 05, 2006

Kjallararottur

Þegar ég var í kringum 18 ára aldurinn bjó ég með Sigga, vini mínum, í kjallaraholu í miðbæ Reykjavíkur. Það voru góðir tímar, vægast sagt, þrátt fyrir aðeins um 30 fermetra og 190 cm lofthæð.
Okkar fyrsta embættisverk var að mála íbúðina. Ekki vegna þess að okkur líkaði ekki liturinn, heldur var allt svo ógeðslegt eftir fyrri leigjanda og við nenntum ekki að þrífa hana. Við máluðum yfir alla veggi, karma, hurðir, ofna og í raun allt sem ekki var gólfið. Manninum á efri hæðinni leist greinilega ekki nógu vel á félagsskap okkar og gerði okkur það ljóst strax á fyrsta degi. Við höfðum verið að mála um daginn og sátum nú saman þrír vinir á gólfinu að sötra bjór og spjalla um eigin dugnað og komandi tíð. Skyndilega er ruðst í gegnum hurðina hjá okkur og það er maðurinn á efri hæðinni sem gargar á okkur að þetta sé okkar fyrsta og síðasta partí! Við vissum vart hverju bæri að svara svo við prófuðum að sitja í nokkrar sekúndur án þess að segja nokkuð í þeirri von að hann áttaði sig á því að við værum bara þrír með bjór og Backstreet Boys geisladisk í hálfum hljóðum. Þrátt fyrir að líta nú út eins og argasta fífl hélt hann eitthvað áfram að þenja sig og við báðum hann náðarsamlegast að steinhalda kjafti og koma sér út, enda værum við ekki að angra neinn. Það endaði með því að við hálf ýttum honum út og skelltum hurðinni á nefið á honum. Við gátum nú ekki brugðist manngreyinu þar sem hann hafði útmálað okkur sem partíhyski og ákváðum að standa undir orðsporinu. Við pökkuðum upp því nauðsynlegasta: 5 hátölurum, risavöxnu bassaboxi, græjum og danstónlistargeisladiskum. Við settum allt í hvínandi botn og fórum að dansa. Vitandi að við gætum ekki stappað hávaða til hans, verandi í kjallaranum, þá nýttum við okkur fáránlega litlu lofthæðina þarna inni og börðum upp undir loftið í hverju spori. Vinur okkar lét ekki sjá sig meira þetta kvöld eða önnur.
Við lifðum á núðlum, pylsum og bökuðum baunum. Frystirinn var smekkfullur af pylsum, allir eldhússkápar troðnir af dósum með bökuðum baunum og á eldhúsgóflinu var 100 lítra fata sem við höfðum notað í bjórbruggun nú full af núðlupökkum. Við söfnuðum tómum bjórdósum og pizzakössum, kepptum í því hver gæti hlaðið stærri stubbahaug í öskubakka og kúkuðum inni í eldhúsi. Ekki vegna þess að við værum ógeðslegir, heldur vegna þess að þar var klósettið, þökk sé snilldarlegri plássnýtingu þess sem innréttaði. Lífið var kannski ekki það smekklegasta, en ljúft var það. Við vorum okkar eigin herrar þó konungsríkið væri lítið.
Nágranni okkar hafði lítil afskipti af okkur, en við heyrðum hann stundum athafna sig í þvottahúsinu sem var fyrir utan innganginn okkar sem var lokað með afar óþéttri hurð. Einn daginn vaknaði ég við atganginn í honum og heyrði að sonur hans var með honum. Ég heyri þegar litli drengurinn gengur að hurðinni okkar og segir stundarhátt: „Pabbi, býr ógeðslega fólkið hér?“ „Já, vinur,“ var svarið.

3 Comments:

At 6/2/06 7:41 e.h., Blogger Bebba said...

Backstreet boys, Styrmir?! ;)

 
At 7/2/06 12:57 f.h., Blogger Styrmir B. said...

Hmm, já. Siggi átti diskinn...

 
At 8/2/06 8:07 e.h., Blogger Bebba said...

je je ;)

 

Skrifa ummæli

<< Home