miðvikudagur, apríl 21, 2004

Elkoævintýri

Ég var einu sinni að vinna í Elko við að selja heimilistæki. Þar, eins og hjá öðrum stórfyrirtækjum, leggur maður sig auðvitað fram um að selja eins mikið og dýrt og maður mögulega getur til að auka velsæld þeirra sem eiga fyrirtækið og er skítsama hver þú ert, því í þeirra augum ertu bara nafn á blaði. ...og hjá sumum fyrirtækjum fær maður líka smá söluþóknun.
Nújæja, einn daginn komu til mín tvær stelpur að versla örbylgjuofn. Önnur þeirra var að kaupa hann, hin var að veita henni andlegan stuðning. (Svona eins og stelpur gera í salernisferðum). Stúlkan var fátækur námsmaður og leitaði því eftir ódýrustu kostunum. Ég sýndi henni nokkra örbylgjuofna og fetaði mig hægt og rólega frá þeim ódýrasta og upp um nokkra þúsundkalla. Að því kom að ég komst ekki hærra og ég var kominn með hana á örbygljuofn sem kostaði um 12.000 krónur. Ég sýndi henni alla kostina og ákvað undir lokin að gera lokatilraun til að heilla hana með 20.000 króna örbylgjuofni sem var í sömu hillu. „Svo erum við hér með alveg ofboðslega góðan ofn sem er með innbyggðu grilli. Hann kostar reyndar 20.000 krónur,“ sagði ég og bætti við: „En þá er ég líklega farinn að pumpa budduna þína heldur harkalega.“ Þarna stóð ég á milli stelpnanna og við horfðum öll á hilluna með ofnunum og enginn sagði neitt og ekkert heyrðist nema kæft fliss vinkonunnar. Ég rauf loks þögnina: „Þetta hljómaði dónalega, var það ekki?“ „Jú,“ var svarið.
Ég ákvað að grafa mig ekkert dýpra í þetta skiptið, dró fram kassa með ódýrari ofninum og rúllaði þeim og nýja ofninum út úr búðinni. Einn daginn læri ég kannski að hugsa áður en ég tala.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home