þriðjudagur, apríl 27, 2004

Sólbrenndur með QuickTan-brúsa

Já, ég fór sko einu sinni til sólarlanda. Var þar með góðvini mínum Stefáni að njóta vinnings sem ég fékk fyrir að þykja landsins skrítnasti maður í þættinum Björn og félagar sem eitt sinn var sýndur á Skjá 1. Sjónvarpsstöðin klúðraði því að senda mig til USA í The Tonight Show eins og til stóð að vinningurinn yrði, en í staðinn fékk ég að fara til Portúgal á fyllirí. Ég skrifaði líka á þá fjandi gott herbergi á virkilega góðu hóteli. En nóg um það. Við hótelið var stór sundlaugargarður og þar lá ég oft í sólbaði ásamt Stefáni. Þegar ég fór út átti ég engar stuttbuxur til að stunda sól- og sundlaugarböðin og ég brá mér á fyrstu dögum dvalarinnar í nærliggjandi túristaverslun og keypti mér buxur. Ég misreiknaði mig líklega aðeins og kæpti þær frekar litlar en hugsaði sem svo að ef ég skakaði mér lítið hlytu þær að haldast í einu lagi. Það var í þessum buxum sem ég lagðist í sólbað einn daginn. Þarna lá ég hálfuppréttur með bogin hné og fylgdist með lífinu í garðinum milli fótanna á mér. Ég er ekki þannig að ég geti steinlegið þegar ég baða mig í sólinni. Þá hundleiðist mér bara. Þegar ég hafði legið þarna í smá stund hljóp lítill strákur fram fyrir bekkinn minn til að sækja boltann sinn. Ég brosti til hans þegar hann leit til mín og hann ætlaði að brosa... en þá kom á hann undarlegur svipur og hann flýtti sér í burtu. Ég hef nú ekki þótt svo ógnvænlegur en mér þótti vænt um að búa þó allavega yfir þeim möguleika að geta hrætt lítil börn, svona inn á milli. Ég hélt áfram að liggja í sólbaðinu þar til ég fór að finna fyrir smá kláða milli fótanna. Ég teygði mig til að klóra mér og VÚÚÚÚP! Þarna lá pungurinn minn og baðaði sig í sólinni með mér! Einhverntímann yfir daginn hafði ég þá eftir allt saman skakað mér of mikið. Ekki nóg til að buxurnar rifnuðu af mér í heilu lagi en þó nóg til að búa til stórt og myndarlegt gat neðan á þeim. Fyrirgefðu, litli drengur. Ég vona að þú sért búinn að jafna þig.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home