fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Rosalega fara tryggingasölumenn í taugarnar á mér

Aðallega vegna þess hve hrikalega ruglandi þeir geta verið. Það er langt síðan ég fór fyrst að hugsa um lífeyrissparnað, líftryggingar og sjúkdómatryggingar og allt það og í dag, um 5 árum seinna er ég engu nær.

Þetta byrjaði allt þegar tryggingasölumaður heimsótti mig í vinnuna og vildi ólmur tryggja mig í bak og fyrir. Ég hélt það nú og bauð manninum upp á kaffibolla og langt spjall. Hann tróð framan í mig hrikalegu magni af pappírum og tölum sem litu alveg ógurlega vel út og ég sá ekki betur en að ég yrði milljóner þegar ég loks hætti að vinna. Ég vildi þó ekki taka skrefið til fulls og fékk alla pappírana hjá honum og lofaði að hringja. Þegar ég fór svo að velta þessu betur fyrir mér áttaði ég mig á því að ég var ekki með þetta nógu vel á hreinu svo ég ákvað að bíða með þetta. Seinna sigaði vinur minn svona sölumanni á mig, í raun til þess eins að hrekkja mig, en mér fannst það ágætt. Loks hefði ég tækifæri til að spyrja allra spurninganna. Ég hitti hann og spurði og spurði og allt leit þetta rosalega vel út. Miklu betra en hjá þeim sem ég var fyrst að skoða, sagði hann, og ég trúði honum. Kvittaði undir og byrjaði að safna réttindum. Síðar lenti ég á spjalli við tryggingasölumann sem sagði mér að það fyrirtæki væri nú ljótu glæpamennirnir og ég myndi enda líf mitt sem öreigi ef ég skipti við þá. Nú voru góð ráð dýr. Frelsari minn hafði sagt mér að fyrstu árin væri ég að borga tæpan 10 þúsundkall á mánuði sem rynni beint í vasann á sölumanninum og ég fengi ekki rassgat fyrr en hann hefði eignast tæpa kvartmilljón af mínum launum sem ég vann fyrir með blóði, svita og tárum. Ég mundi ekkert hver þessi maður var sem seldi mér trygginguna svo ég hringdi í tryggingamiðlunina sem hann vann hjá. Þar baulaði ég: “Ég ætla að segja upp!” um leið og símanum var svarað. Stúlkan spurði hverju og ég sagðist ekki hafa hugmynd. Sagði henni kennitöluna mína og sagði henni að segja upp öllu sem hún fyndi. Hún vildi frekar gefa mér samband við tryggingaráðgjafa og hann var hinn versti. Símastúlkan hafði greinilega varað hann við og hann var kominn í startholurnar að snúa mér um leið og ég fékk sambandið. “Af hverju ertu að segja upp?” spurði hann með þjósti. Ég hafði fram að þessu verið búinn að gíra mig upp í að segja söguna sem ég heyrði en mér fannst hann svo dónalegur að eina svarið sem ég gaf var: “Það kemur þér bara ekkert við!” Hann maldaði eitthvað í móinn og ég sagði honum að sleppa bara vælinu og strika mig út af öllum þeirra listum. Þá fór hann að tala um að þetta væri flókið skriffinskuferli sem tæki nokkra mánuði og ég yrði bara að gjöra svo vel og bíða og borga. Þá fauk nú í mig en ég ákvað að eyða ekki frekari orðum í þennan asna sem ætlaði greinilega að bjarga jeppaafborgunum kollega síns með því að mjólka mig nú í nokkra mánuði í viðbót. Ég þakkaði fyrir og lagði á en hringdi svo strax í bankann minn þar sem ég sagði upp greiðslukortinu mínu hið snarasta. Tryggingafélagið hafði verið að taka iðgjöldin af því og með þessu ætlaði ég að stoppa þjófnaðinn með valdi. Það tókst, ég varð greiðslukortalaus en jafnframt ótryggður. Hvað ef ég yrði svo fyrir píanói daginn eftir og myndi deyja tragískum teiknimyndadauðdaga? Það ætlaði ég ekki að láta gerast, að minnsta kosti ekki ókeypis.

Ég hafði augun opin og svo birtist óháður tryggingaráðgjafi á þröskuldinum hjá mér og vildi leysa öll mín vandamál. Ég dró hann heim til konunnar minnar og kattarins og sat lengi með honum þar sem hann leiddi okkur í allan sannleikann um það hvernig tryggingarnar virkuðu og hvar peningarnir yxu á trjám. Mér fannst þessi boðberi sannleikans svo vingjarnlegur og áreiðanlegur að ég kvittaði undir allt draslið og tryggði mig og mína í bak og fyrir. Svona eftir á að hyggja hefði ég nú alveg mátt spyrja sjálfan mig hvers vegna möppurnar hans og öll flottu blöðin voru frá Allianz, sem ég endaði einmitt á að skrá mig hjá. Óháður, my ass!

Þegar þangað var komið var ég samt orðinn svo þreyttur á þessu rugli að ég ákvað að hætta alfarið að hugsa um þetta. Það var svo um ári seinna að menn frá KB banka gripu mig í matvöruverslun og spurðu hvort ég væri með viðbótarlífeyrissparnað. Ég sagði þeim hróðugur að ég væri sko tryggður niður í rassgat og það hjá Allianz, því fyrirmyndarfyrirtæki. Þá heyrðist hnuss í þeim báðum, eflaust þaulæft og frátekið fyrir tilfelli eins og þetta. Ég gat auðvitað ekki annað en spurt hvers vegna þeir teldu nauðsynlegt að hnussa í kór og þá sögðu þeir mér að ég væri nú í ljótum málum að vera hjá Allianz. Þar væri ég að borga fyrstu 2 árin fyrir ekki neitt og byrjaði í raun ekki að safna fyrr en eftir að hafa “gefið” þeim 2ja ára iðgjöld. Ég hvítnaði auðvitað og hlustaði svo á þá segja mér hvernig þeirra sjóðir væru sko miklu betri og þeir væru næstum í sjálfboðavinnu við að selja þetta, slík væri manngæskan hjá KB banka. Þeir voru meira að segja með tilbúin uppsagnareyðublöð ef ég vildi þiggja hjá þeim yfirhalningu og tryggingu fyrir fjárhagslegri framtíð minni. Ég hélt nú ekki og var búinn að fá nóg af þessum hringlandahætti. Ég rauk beina leið heim og gróf upp nafnspjald vinalega tryggingaráðgjafans og hringdi í hann. Hann sagði mér að þetta væri allt haugalygi og bauð mér að líta við hjá mér næst þegar hann væri í bænum og fara yfir þetta með mér. Ég afþakkaði það, enda búinn að safna mér upp þvílíku magni af tölum og pappírum sem ég skil ekkert í en geymi þó ef heimsendir kæmi og salernispappírinn skyldi klárast. Ég ætlaði að ræða þetta í stuttu máli við næsta Allianz sölumann sem ég sæi á förnum vegi. Ástæðan var einfaldlega sú að það er auðveldara að losna við svona sölumenn þegar þeir eru á almannafæri en þegar þeir eru komnir inn í stofu hjá manni.

Nokkrum mánuðum seinna var ég í Smáralind og sá Allianz menn á veiðum. Ég rauk til þeirra og sagði þeim það sem KB mennirnir höfðu sagt mér og því svöruðu þeir með afskaplega föðurlegum hlátri (sem kannski var æfður) og sögðu mér að ég hefði engu að kvíða. Drógu svo upp pappíra sem þeir ráku undir nefið á mér og krotuðu á þá samhengislaust bull í bak og fyrir en niðurstaðan var á endanum sú að þessi tveggja ára greiðsla myndi aðeins falla í þeirra skaut ef ég myndi hætta áður en tvö ár væru liðin. Þeir væru bara að tryggja að fólk væri ekki að eyða tíma þeirra með því að flakka milli fyrirtækja. Þetta fannst mér hin prýðilegasta útskýring og fór sáttur.

Svo gerðist það um daginn að í mig hringdi kona frá Landsbankanum sem vildi endilega fá mig í viðskipti við bankann. Bauð mér að líta við í útibúi þeirra í mínum heimabæ og þar yrði mér gert ómótstæðilegt tilboð. Ég þáði það, en í raun aðeins í þeim tilgangi að eyða tíma sölumannsins og kannski skemmta sjálfum mér í leiðinni, því ég er mjög sáttur í mínum banka og vissi vel hvað þeir myndu bjóða mér. Fríðindi sem ég hef engan áhuga á. Gullkort, yfirdráttarheimildir, lán og fleiri yfirdráttarheimildir. Ég hafði rétt fyrir mér og þetta átti ég allt að fá án ábyrgðarmanna. Þurfti bara að kunna að skrifa nafnið mitt og ég gæti verið kominn í milljónaskuldbindingar við bankann. En æðislegt! Ég hlustaði á sölumanninn tala og flissaði eins og fífl, því mér finnst svona tilboð svo bjánaleg. Ég átti að fá að koma í Vörðuna sem hann sagði mér að væri aðeins fyrir bestu viðskiptavini bankans. Þarna gat ég ekki meir og skellti upp úr og spurði hvort ég væri virkilega einn af þeirra bestu viðskiptavinum, með öll mín viðskipti í öðrum banka frá upphafi og hafandi í raun aðeins átt ein viðskipti við Landsbankann, en það var þegar ég var yngri og fékk hjá þeim debetkort með yfirdráttarheimild til að komast á fyllirí með strákunum. Kortinu lokaði ég ári seinna. Hann gat auðvitað ekki annað en samsinnt mér, enda held ég að þeir voni að þegar þeir haldi svona ræður yfir fólki verði það svo uppnumið af öllum fríðindunum að það gleymi allri skynsemi.

Ég sagði honum að hann gæti átt sínar yfirdráttarheimildir og vildarpunkta (sem færa mér gluggasköfu frá Essó á nokkurra ára fresti) og spurði hvort hann ætti fleiri ása upp í erminni. Það hélt hann nú og fór að kynna mér lífeyrissparnaðinn þeirra. Ég sagði honum hrakfallasögu mína í stuttu máli og sagði honum að ég væri hjá Allianz og þaðan færi ég ekki, sama hvað hann rembdist. Hann varð skelfingu lostinn fyrir mína hönd og vildi meina að Allianz væri djöfullinn sjálfur. Allt nema Allianz, sagði hann. Svo tók hann ræðuna um tveggja ára greiðslurnar en ég stoppaði hann í miðju kafi og spurði hann hvort hann væri ekki til í að skrifa þessar fullyrðingar sínar á bréfsefni bankans og undirrita það svo ég gæti verið viss um að hann væri að segja sannleikann. Þá snarþagnaði hann og sagði að það myndi hann aldrei gera, þetta væri bara túlkunaratriði. Ég gaf honum hnussið sem ég lærði af KB bankamönnum og sagði að þá væru fullyrðingar hans lítils virði. Hann gafst samt ekki upp og byrjaði að tala um prósentur sem hinir og þessir væru að taka af ávöxtuninni minni fyrir umsýslu og annað og ég væri að láta fara svo illa með mig. “Mér finnst bara sjálfsagt að fólk fái borgað fyrir sína vinnu og umsýslu,” sagði ég og þar með var málið dautt. Í örvæntingu reyndi hann að kynna mér launaverndina hjá Landsbankanum og ég hlustaði en þegar hann var hálfnaður var ég farinn að hugsa um kettlinga og regnboga og horfði því á hann skilningssljóum augum þegar hann lauk máli sínu. Ég tók pappírana saman, þakkaði honum fyrir tímann og ergelsið og sagði honum að það væri aldrei að vita nema ég kæmi til hans þegar mig vantaði greiðslukort sem ég nota ekki fyrir 8.900 á ári.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home